Rannsaka líðan íbúa á Seyðisfirði í kjölfar hamfaranna 2020
„Rannsókn sem þessi er mikilvæg því það skiptir miklu máli hvaða áhrif hamfarir á borð við þær sem áttu sér stað hafa haft á líðan íbúa í bænum,“ segir Urður Gunnarsdóttir, verkefnastýra hjá Austurbrú.
Hafin er rannsókn hjá Austurbrú á hugsanlegum afleiðingum skriðufallanna sem féllu á Seyðisfjörð í desember 2020 á líf og líðan íbúa í firðinum. Rannsóknin fer að hluta fram rafrænt gegnum vef Austurbrúar en það er Byggðasjóður sem styrkir verkefnið.
Urður segir slíkar rannsóknir algengar í öðrum löndum þegar stóráföll verða í smærri samfélögum enda geti slíkt eðli máls samkvæmt haft mikil áhrif á líðan einstaklinga í kjölfarið.
„Hugmyndin er auðvitað að fá sem flesta Seyðfirðinga til að taka þátt og því fleiri sem það gera því betri mynd fæst af stöðunni. Svo munum við reyna að gera aðra sams konar rannsókn að nokkrum árum liðnum til að fá samanburðinn.“