Skip to main content

Rannsaka seigluna í samfélaginu eftir skriðuföllin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. mar 2022 10:41Uppfært 09. mar 2022 19:41

Austurbrú stendur nú fyrir rannsókn á samfélagslegri seiglu í kjölfar skriðufallanna á Seyðisfirði í desember 2020. Vonast er til að nýta megi niðurstöðurnar til að læra hvernig styðja megi betur við íbúa þannig samfélag þeirra nái aftur jafnvægi eftir áfall.


Rannsóknin kallast „Seigla í kjölfar náttúruhamfara.“ Vonast er til þess að rannsóknin gefi hugmynd um það hvað það er sem myndar seiglu í samfélagi og virkar verndandi þegar samfélagsáfall eins og náttúruhamfarir verða. Þá er verið að kanna upplifun og líðan íbúa gagnvart atburðum og áhrif þeirra á líf íbúa.

Þegar er búið að taka viðtöl við íbúa og viðbragðsaðila. Fyrstu niðurstöður úr þeim sýna að upplifun þeirra af atburðunum er ekki alveg sú sama, þótt flestir telji alla hafa gert sitt besta, að sögn Þóru Grétu Pálmarsdóttur sem stýrir rannsókninni.

Brottflutningur íbúa virðist í lágmarki, þótt vissulega sé staðan líka sú að ekki geta allir flutt í burtu. Í einhverjum tilfellum geri baráttuhugurinn það að verkum að fólki reynist erfitt að viðurkenna að það vilji fara annað.

Heilt yfir virðast áföllin hafa þjappað fólki saman og bjartsýni almennt ríkjandi þótt áhyggjur séu af atvinnulífi. Þá skapar bið eftir nýju hættumati óvissu.

Þessa dagana er í loftinu spurningalisti sem leitast er er eftir að fá alla þá sem bjuggu á Seyðisfirði þegar skriðurnar féllu til að svara. Spurningarnar eru bæði á íslensku og ensku.