Rannveig Þórhallsdóttir ráðin til Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. feb 2022 11:54 • Uppfært 02. feb 2022 11:57
Rannveig Þórhallsdóttir, fornleifafræðingur, hefur verið ráðin sem verkefnastjóri Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi.
Í tilkynningu frá HÍ kemur fram að verkefni Rannveigar hjá setrinu verði einkum á sviði fornleifafræði, þótt hún muni koma að fleiru. Ráðning hennar er liður í að efla setrið eystra, sem frá áramótum hefur bæði starfsstöðvar á Egilsstöðum og Seyðisfirði.
Maður og náttúra er meginviðfangsefni Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi og meginmarkmið þess er að auka þekkingu á sögu samfélags og náttúru Austurlands, stunda og stuðla að rannsóknum á sögu, samfélagi og náttúru á Austurlandi og efla samstarf Háskóla Íslands við menningarstofnanir, vísindamenn og fræðafélög á Austurlandi.
Rannveig er búsett á Seyðisfirði en fædd og uppalin á Egilsstöðum. Hún starfar hjá eigin fyrirtæki, Sagnabrunni ehf., og við kennslu í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Auk þess vinnur hún að doktorsrannsókninni „Árþúsund við Atlantshaf“, í fornleifafræði við HÍ þar sem hún skoðar fornDNA plantna, dýra og baktería í jarðvegi bæjarhólsins í Skálanesi.
Hún lauk meistaraprófi í fornleifafræði við HÍ haustið 2018 með rannsókn sem fjallaði um svonefnda fjallkonu sem fannst á Vestdalsheiði. Rannveig lauk BA prófi í bókmenntafræði frá HÍ árið 1999 og réttindum til kennslu í grunn- og framhaldsskóla frá HA árið 2001.
Síðustu tvö árin hefur Rannveig unnið að uppgreftri í Firði í Seyðisfirði þar sem fjórar grafir frá landnámstíma fundust sumarið 2021 á framkvæmdasvæði vegna ofanflóðavarna á Seyðisfirði. Ráðgert er að grafa upp byggingar frá landnámstíma sumarið 2022 á sama stað. Rannveig vann sumrin 2016-2019 að uppgreftri Fornleifafræðistofunnar á víkingaskála í Stöð, Stöðvarfirði.
Hún hefur m.a. starfað sem safnstjóri Minjasafns Austurlands, þýðandi hjá Utanríkisráðuneytinu og komið að uppbyggingu og rekstri náttúru- og menningarsetursins Skálaness í Seyðisfirði með eiginmanni og fjölskyldu.