Skip to main content

Rausnarleg framlög björguðu skólaferðalagi elstu bekkja Brúarásskóla

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. júl 2023 09:57Uppfært 24. júl 2023 12:12

Útlitið var heldur svart um tíma hjá níunda og tíunda bekk Brúarásskóla fyrr í vor þegar Niceair hætti skyndilega starfsemi en þá höfðu krakkarnir greitt fyrirtækinu rúmar 700 þúsund krónur vegna skólaferðalags til Danmerkur sem ekki fékkst endurgreitt. Fyrir tilstuðlan góðra aðila tókst þó að safna saman stærstum hluta fjársins á skömmum tíma svo krakkarnir komust í sína ferð þrátt fyrir allt.

Nokkuð var fjallað um þetta í apríl og maí enda hætti Niceair fyrirvaralaust starfsemi um miðjan apríl og sátu þó nokkrir viðskiptavinir þeirra fastir erlendis í kjölfarið. Skólaferðalag krakkanna í Brúarásskóla, sem safnað höfðu allan veturinn í ferðasjóð, var í uppnámi af sömu sökum og kröfur um endurgreiðslu á hendur Niceair báru engan árangur. Fyrirtækið fór svo í gjaldþrotaskipti seint í maímánuði.

Ásgrímur Ingi Arngrímsson, skólastjóri Brúarásskóla, segir að í kjölfar fréttaumfjöllunar um vandræði krakkanna hafi komið í ljós að skólinn á marga góða að hér og þar.

„Þá höfðu samband við okkur allnokkrir aðilar og einstaklingar sem vildi leggja hönd á plóg að aðstoða svo krakkarnir kæmust í ferðina og þeir svo rausnarlegir að nánast öll upphæðin sem um ræddi fékkst bætt. Nefni ég sem dæmi Hlyn Bragason hjá Sæti, Rótarýklúbbinn á Héraði, fyrirtækið Blikkrás á Akureyri og Kristján Atla Baldursson sem gaf fjölda pinnaspila til að selja til styrktar sjóðnum. Við kunnum þessum aðilum miklar og góðar þakkir fyrir stuðninginn.„,“

Krakkarnir fóru svo aðra leið til Danmerkur og gekk hún með miklum ágætum að sögn skólastjórans sem segir ljóst að gera þurfi kröfu í þrotabúið til að eygja einhvern möguleika að fá peningana til baka þegar fram líða stundir.

Krakkarnir á góðri stundu í ferð sinni í Danmörku en um tíma leit út fyrir að allt þeirra söfnunarstarf hefði verið fyrir lítið. Mynd Brúarásskóli