Reikningarnir hætta ekki að koma þótt verðið á grásleppu hrynji
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. apr 2022 14:36 • Uppfært 13. apr 2022 14:38
Útlit er fyrir erfiða grásleppuvertíð vegna hruns á mörkuðum og samdráttar í veiðum. Útgerðarmaður segir að staðan muni reyna á.
„Staðan er að markaðurinn er ónýtur. Fiskurinn hefur verið fluttur til Kína en þar hefur allt verið lokað út af Covid-svo hann er nánast verðlaus.
Síðan eru enn til birgðir af óunnum hrognum frá í fyrra hérlendis. Þess vegna er kannski best að veiðin og kvótinn minnki til að ná verðum á mörkuðum upp,“ segir Heiðar Kristbergsson, sjómaður á Vopnafirði en Vopnafjörður hefur lengi verið einn helsti löndunarstaður grásleppu.
Sveiflur eru þó ekki óþekktar á grásleppunni. „Þetta er lítill og viðkvæmur markaður. Það er ekki nýtt að verðið fari upp í hæstu hæðir og hrynji síðarn,“ segir Heiðar.
Hann hefur stundað grásleppuveiðar í um 30 ár en kveðst ekki enn vera búinn að ákveða hvort hann haldi til veiða á þessari vertíð. Velja þarf tímann vel, sjómenn hafa 25 daga frá því þeir skrá sig til veiða. Heiðar kveðst reikna með að fara til grásleppuveiða eftir páska en bætir við að áhuginn hafi oft verið meiri.
Heiðar gerir út þrjá báta. Venjulega hafa tveir þeirra verið á grásleppu en í ár verður aðeins einn, Hólmey NS56. Hann segir sex báta frá Vopnafirði vera byrjaðar veiðar og leggja net í kringum Langanes. Fyrstu fréttir af veiðinni séu að hún sé dræm, þó skárri norðan við nesið.
Hafrannsóknastofnun lagði nýverið til tæplega 7000 tonna grásleppukvóta, minnkun upp á 23% frá í fyrra. „Vegna stöðunnar held ég að flest allir fagni skerðingunni.“
En þótt vonir séu bundnar við að verðin verði betri í framtíðinni getur verið erfitt að þrauka um stundarsakir. „Þetta er ekki þægileg staða fyrir þá sem reyna að lifa af grásleppuveiðunum. Reikningarnir hætta ekki að koma. Bátar með engan eða lítinn kvóta stóla á grásleppuna þar til strandveiðarnar hefjast um miðjan maí. Þá hafa menn val. Síðan bætist við að það er vont að fá mannskap á bátana því launin eru lág meðan staðan er svona.“
Vinnsla Brim hefur að undanförnu tekið við grásleppu en dótturfélag þess, Vignir G. Jónsson á Akranesi, er helsti kaupandi grásleppuhrogna. „Vignir G. Jónsson hefur lengi keypt hrogn af okkur og samstarfið við bæði þá og síðar Brim hefur gengið mjög vel.