Rekstur Múlaþings mun betri á síðasta ári en áætlanir gerðu ráð fyrir
Á síðasta ári tókst að bæta fjárhag og rekstur sveitarfélagsins Múlaþings umtalsvert frá fyrra ári en ársreikningurinn fyrir 2024 var opinberaður sveitarstjórninni til fyrri umræðu nýverið.
Helstu rekstrartölur sýna að niðurstaða samstæðureiknings Múlaþings, A- og B-hluti, reyndist jákvæð um 921 milljón króna en þar af var afkoma A-hlutans 271 milljón króna.
Skuldir tókst að lækka á árinu um 291 milljón króna en heildarskuldir og skuldbindingar samstæðureiknings sveitarfélagsins stóð í árslok í tæpum 13,4 milljörðum króna. Skuldaviðmið sveitarfélagsins samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið fyrir samstæðu mældist 91% 2024 eða töluvert betri en í árslok 2023 þegar viðmiðið var 105%. Alls eigið fé sveitarfélagsins í báðum hlutum var jákvætt um rúmlega 4,1 milljarð króna.
Slit Skólaskrifstofu stór þáttur
Kom það í hlut fráfarandi sveitarstjóra, Björns Ingimarssonar, að gera grein fyrir niðurstöðu síðasta árs á fundi sveitarstjórnar.
„Jákvæðari rekstrarniðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir skýrist að mestu leyti af slitum Skólaskrifstofu Austurlands en eignarhlutur sveitarfélagsins, sem færist til tekna í A-hluta undir óvenjulegum liðum, nam tæpum 511 milljónum. Rekstur fyrir fjármagnsliði og afskriftir í A-hluta og samstæðu A-, og B-hluta var hins vegar töluvert betri en gert var ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun, sem og veltufé frá rekstri.“
Fleira jákvætt
Berglind Svavarsdóttir, varaforseti sveitarstjórnar, benti á að þrátt fyrir Skólaskrifstofuslitin, þar sem sveitarfélagið fór með 70% eignarhlut, væru fleiri jákvæð teikn í ársreikningnum.
„Eins og varðandi framlegðina, sem einskiptisaðgerðin [slit Skólaskrifstofu] hefur ekki áhrif á, er hún heldur betur á uppleið. Hún hækkað úr 5,5% í 7,3% þannig að við erum á uppleið varðandi reksturinn. Í samstæðunni allri fór framlegðin úr 14,5% í 15,7%. Það verður að minnast á verðbólguna sem hefur verið okkar sveitarfélagi, sem og öðrum, mjög erfið en hún fer hratt lækkandi og eins og áhrifin hafa verið hér gegnum tíðina að fyrir hvert prósentustig sem er umfram áætlun hjá okkur kostar það okkur um 50 milljónir.“
Hábeinn heppni
Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn, Þröstur Jónsson, sagðist létt yfir jákvæðari niðurstöðu en að slíkir reikningar minntu hann gjarnan á fígúrur úr gömlum Andrésar Andar blöðum.
„Það er dálítið með þennan meirihluta í sveitarstjórn að mér finnst hann stundum vera eins og Hábeinn heppni í Andrésar Andarblöðunum og við hin þá kannski dálítið eins og Andrés Önd. Því er ekki að neita að það var mikill lottóvinningur að þessi óreglulegi liður með uppgjör Skólaskrifstofu Austurlands upp á 510 milljónir gjörbreytir í raun niðurstöðunni í þetta eina skipti.“
Brýndi Þröstur fyrir kollegum sínum að standa þyrfti áfram á tánum því ekki væri von á slíkum „lottóvinningi“ á næsta ári.