Rektur Háskólans á Akureyri kynnti sér háskólanám á Austurlandi
Rektor Háskólans á Akureyri kynnti sé fyrr í mánuðinum háskólastarf og aðstæður allar fyrir slíkt á Austurlandi en töluverður fjöldi Austfirðinga stunda reglubundið nám við skólann.
Rektorinn, Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir, tók við stjórnartaumum í háskólanum um mitt síðasta ár og hún gerði sér nýverið ferð austur þar sem hún átti gagnlegan fund með bæði Dagmar Ýr Stefánsdóttur, sveitarstjóra Múlaþings, og Jónu Árnýju Þórðardóttur, bæjarstjóra Fjarðabyggðar.
Aðspurð hvort verið sé að skoða aukna námsmöguleika á Austurlandi í gegnum Háskólann á Akureyri sagði Áslaug ferð sína hafa snúist meira um að koma sér inn í hlutina. Þó sé sannarlega vilji til að leita leiða til að efla háskólanám austanlands frekar en Háskólinn á Akureyri og Háskólinn í Reykjavík standa í sameiningu að tölvunarnámi á Reyðarfirði í samstarfi við Austurbrú. Það er eina staðbundna háskólanámið sem staðið hefur Austfirðingum til boða en frá næsta hausti verður í boði diplómanám að Hallormsstað í samstarfi við Háskóla Íslands.
„Við erum með töluverðan fjölda Austfirðinga í þessu sveigjanlega háskólanámi sem við bjóðum upp á í viðbót við þá sem leggja stund á tölvunarnámið. Við ræddum stöðuna mikið og vel í víðu samhengi. Fórum meðal annars yfir hvernig við gætum aukið áhuga Austfirðinga á því námi sem er í boði. En við vorum allar sammála um að auka allt samstarf, þar með talið samstarf háskólasamfélagsins við fyrirtæki og stofnanir í fjórðungnum. Slíkir aðilar hafa verið mikilvægur hlekkur í að byggja upp öflugt námssamfélag.“
Sveitar- og bæjarstjóri með rektor Háskólans á Akureyri að góðum fundi loknum fyrr í mánuðinum. Mynd Fjarðabyggð