Þrettándahvellur í veðrinu á Austurlandi

snjor_egs_19122010_0008_web.jpgEkkert ferðaveður er í fjórðungnum og þrettándabrennum víðar verið frestað eða þær fluttar til. Ekki tókst að ljúka við sorphirðu í Neskaupstað í gær og frekari röskun á sorphirðu í Fjarðabyggð er fyrirsjáanleg á næstu dögum.

 

Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er þungfært og stórhríð á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarði og Fagradal. Þæfingur er og stórhríð á Oddsskarði. Ófært er yfir Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur eru annars staðar á svæðinu suður að Djúpavogi.

Á Djúpavogi hefur þrettándabrennu verið frestað um óákveðinn tíma og á Eskifirði fram á mánudag. Á Egilsstöðum hefur dagskrá þrettándagleðinnar verið færð inn í íþróttahúsið.

Ekki tókst að klára sorphreinsun í þeim götum sem eru næst sjónum í Neskaupstað í gær vegna veðurs. Til stendur að reyna að gera það í dag eða á morgun. Veðurspáin er samt ekki góð og því má búast við frekari röskun á sorphirðu næstu daga, að því er fram kemur á vef Fjarðabyggðar.

Veðurstofan spáir norðan og norðvestan 13-23 á Austfjörðum í dag en hvassara verði í vindstrengjum. Nokkuð lægir eftir miðnætti og vindur verður heldur minni á morgun. Að Austurlandi að Glettingi og Suðausturlandi er spáð 18-25 m/s í kvöld og 13-20 á morgun, þegar snýst í norðaustanátt. Gert er ráð fyrir él og nokkurri snjókomu í kvöld og nótt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.