Skip to main content

Þrettándahvellur í veðrinu á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. jan 2011 11:12Uppfært 08. jan 2016 19:22

snjor_egs_19122010_0008_web.jpgEkkert ferðaveður er í fjórðungnum og þrettándabrennum víðar verið frestað eða þær fluttar til. Ekki tókst að ljúka við sorphirðu í Neskaupstað í gær og frekari röskun á sorphirðu í Fjarðabyggð er fyrirsjáanleg á næstu dögum.

 

Samkvæmt heimasíðu Vegagerðarinnar er þungfært og stórhríð á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarði og Fagradal. Þæfingur er og stórhríð á Oddsskarði. Ófært er yfir Fjarðarheiði, Öxi og Breiðdalsheiði. Hálka eða snjóþekja og skafrenningur eru annars staðar á svæðinu suður að Djúpavogi.

Á Djúpavogi hefur þrettándabrennu verið frestað um óákveðinn tíma og á Eskifirði fram á mánudag. Á Egilsstöðum hefur dagskrá þrettándagleðinnar verið færð inn í íþróttahúsið.

Ekki tókst að klára sorphreinsun í þeim götum sem eru næst sjónum í Neskaupstað í gær vegna veðurs. Til stendur að reyna að gera það í dag eða á morgun. Veðurspáin er samt ekki góð og því má búast við frekari röskun á sorphirðu næstu daga, að því er fram kemur á vef Fjarðabyggðar.

Veðurstofan spáir norðan og norðvestan 13-23 á Austfjörðum í dag en hvassara verði í vindstrengjum. Nokkuð lægir eftir miðnætti og vindur verður heldur minni á morgun. Að Austurlandi að Glettingi og Suðausturlandi er spáð 18-25 m/s í kvöld og 13-20 á morgun, þegar snýst í norðaustanátt. Gert er ráð fyrir él og nokkurri snjókomu í kvöld og nótt.