Reyna að komast að því hvað veldur óeðlilegum breytingum í lifrum hreindýra
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. jún 2025 13:53 • Uppfært 24. jún 2025 14:08
Matvælastofnun leiðir samstarfsrannsókn á orsökum breytinga sem sést hafa í lifrum hreindýra. Vonast er til að ná heilu hreindýri með breytta lifur til ítarlegrar rannsóknar á veiðitímabilinu í ár.
Verkefnið „Hnúðabólgubreytingar í íslenskum hreindýrum – leið að orsök“ hlaut á dögunum sex milljóna króna styrk úr Matvælasjóði. Að baki því standa auk MAST, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði eða Keldur, Náttúrustofa Austurlands, Náttúruverndarstofnun og Háskólinn í Innlandet í Noregi.
Kýli eða útbrot á lifur
Breytingunum má lýsa sem einhvers konar útbrotum, hvítum dílum eða jafnvel blöðrum eða þykkildum, á eða í lifrinni sem minna mikið á fituvef. Fyrsta sýnið var sent til Keldna árið 2007. Síðan hafa yfir 20 lifrar verið skoðaðar án þess að orsakirnar séu þekktar.
„Birtingamyndin er mjög misjöfn. Við höfum bæði séð lifrar með langvinnum breytingum þar sem dýrin hafa lagt af en líka lifrar með langvinnum breytingum þar sem ekkert sér á dýrunum. Við höfum séð lifrar með 2-3 litlum punktum yfir í kýli sem gröftur vall út úr,“ segir Ólafur Jónsson, verkefnastjóri hjá MAST, sem leiðir verkefnið.
Skýringa á breytingunum hefur einnig verið leitað hjá erlendum sérfræðingum. „Það hafa verið sendar myndir erlendis til sérfræðinga og leitað í vísindagreinum. Hvergi hafa fundist sambærilegar breytingar. Við finnum þetta heldur ekki í öðrum jórturdýrum á Íslandi. Það er búið að gera margar tilraunir til að rækta út frá sýnunum með nýjustu tækni en það hefur engu skilað,“ segir Ólafur.
Um 2% hreindýra virðast með mein í lifur
Árið 2022 gerði Hrafnkatla Eiríksdóttir, dýravísindafræðingur, samantekt á þeirri vitneskju sem þá lá fyrir um breytingarnar. Hún greindi breytingar í 2,2% felldra tarfa það ár, sem er nokkuð hærri tala en reiknað hafði verið með. Í ár verður þess freistað að afla betri upplýsinga um hversu algengar breytingarnar séu.
Hálfdán Helgi Helgason, sviðsstjóri hreindýrarannsókna hjá Náttúrustofu Austurlands, segir að fyrst hafi breytinganna orðið vart syðst á Austurlandi. „Nú sjáum við líka merki á öðrum svæðum, sem getur verið vísbending um að tilfellunum sé að fjölga – eða við séum orðin meira vakandi fyrir breytingunum.“
Fyrsta tilgátan er að um bakteríusýkingu sé að ræða en getgátur eru líka uppi um sníkjudýr. En allt er opið, til dæmis hvort veikindin smitist á milli dýra. „Við teljum helst að þetta tengist einhvers konar sýkingu sem dýrið hefur gengið í gegnum,“ segir Ólafur.
Veiðimenn fá bætur fyrir dýr til rannsókna
Innan við mánuður er í að hreindýraveiðitímabilið hefjist. Þar verður þess freistað að ná heilum dýrum með breytingar í lifrum til skoðunar þannig hægt sé að rannsaka meinið í samhengi við aðra líffærastarfsemi. Eitt af markmiðum verkefnisins er að tryggja að afurðir úr hreindýrum með meinið séu örugglega hæfar til neyslu.
Miðað við rúmlega 2% tíðni og 665 dýra veiðikvóta gætu 14-15 dýr með meinið veiðst í ár. Hafa þarf hraðar hendur því dýrið má ekki byrja að rotna. Þess vegna er miðað við að hægt sé að kæla það og flytja suður til rannsókna á um sólarhring. Vonast er til að ná fjórum dýrum í ár.
„Þetta er flókin aðgerð og eina leiðin til að gera þetta er gott samstarf við Náttúruverndarstofnun, sem hefur umsjón með veiðunum, og leiðsögumenn og veiðimenn sem þurfa að vera tilbúnir að gefa eftir dýr,“ segir Hálfdán. Veiðimennirnir munu fá bætur fyrir dýrin sem þeir gefa eftir.
Veiðimenn sem veiða dýr með breytta lifur í sumar er bent á að hafa samband við Náttúrustofu Austurlands eða Náttúruverndarstofnun. Fundað var með fulltrúum veiðimanna og stofnanna um verkefnið á Egilsstöðum í gær. Þá verður það kynnt á sérstökum fundi með leiðsögumönnum áður en veiði hefst.
Að loknum fundi í húsnæði Náttúrustofu Austurlands í gær, frá vinstri: Jóhann G. Gunnarsson sérfræðingur hjá Náttúruverndarstofnun, Þórhallur Borgarsson, formaður hreindýraráðs, Jónas Hafþór Jónsson, varaformaður Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum (FLH), Jón Hávarður Jónsson, formaður FLH, Ólafur Jónsson, dýralæknir hjá MAST og Hálfdán Helgi Helgason, líffræðingur hjá Náttúrustofu Austurlands.