Reyndu að grafa undan vöruflutningum með Norrænu

Samskip og Eimskip tóku sig saman á árunum 2008-13 um að reyna að þrengja að starfsemi danska flutningafyrirtækisins Blue Water Shipping (BWS) í siglingum með vörur til bæði Íslands og Færeyja. BWS stundaði á þeim tíma flutninga með Norrænu.

Þetta kemur fram í úrskurði Samkeppniseftirlitsins sem birtist í gær. Þar er farið yfir margþætt samstarf íslensku fyrirtækjanna tveggja sem hófst sumarið 2008 og stóð hið minnsta fram til ársins 2013. Rannsókn málsins hefur staðið í áratug og voru gögn meðal annars haldlögð í húsleit.

Málarekstri Samkeppniseftirlitsins gegn Eimskipum lauk sumarið 2021 með sátt. Hún fól í sér viðurkenningu á brotum og greiðslu upp á 1,2 milljarða króna, sömu upphæð og Íslandsbanki var sektaður um fyrr á árinu. Málinu gegn Samskipum var haldið áfram og í gær tilkynnti Samkeppniseftirlitið að það hefði sektað fyrirtækið um 4,2 milljarða króna. Það er langhæsta sekt Íslandssögunnar.

Um leið var úrskurðurinn opinberaður þar sem rakið er hvernig samráðið fór fram. Það snérist um að hafa stjórn á verðlagningu á flutningum á bæði sjó og landi.

Óþægileg samkeppni frá aðila með litla markaðshlutdeild


Meðal þess sem íslensku fyrirtækjunum er gefið að sök er að hafa tekið sig saman um að sporna gegn innkomu BWS á íslenskan markað. Í úrskurðinum segir að BWS hafi verið frekar lítið á íslenskum markaði, verið með 1-3% markaðshlutdeild en öflugra í flutningum til og frá Færeyjum, þar sem íslensku fyrirtækin voru einnig með starfsemi.

Samkeppniseftirlitið fann gögn sem sýndu að bæði Samskip og Eimskip litu á BWS sem ógn í flutningum með ferskan fisk. Þannig hafi Eimskip sett sér það markmið árið 2012 að hækka verð í útflutningi og þá spurt hvernig hægt væri að verjast samkeppni BWS. Á sama tíma hafi Samskip talið mikilvægt að losna við danska félagið út af íslenskum markaði.

Vildu að Blue Water hætti flutningum yfir vetrarmánuðina


Ein leiðin til að hemja samkeppnina var að taka upp samstarf við BWS um sjóflutninga til og frá Íslandi og Færeyjum. Samkeppniseftirlitið segir gögn málsins sýna „nánast samhliða og síendurtekin samskipti“ íslensku félaganna við BWS á árunum 2009-13 auk umfjöllunar innan beggja félaga um málefni BWS. Eftirlitið telur ætlunina hafa verið að draga úr samkeppni BWS til að auðvelda Eimskipum og Samskipum að hækka verða eða koma í veg fyrir lækkanir.

Nefndur er tölvupóstur milli stjórnanda frá Eimskip frá í nóvember 2008 þar sem fram komu að samkeppni við Samskip hafi minnkað en aukist við Blue Water. Í öðrum pósti milli stjórnenda Samskipa er því lýst að samkeppnin við BWS hafi leitt til hrikalega lágs verðs.

Fram kemur að Samskip hafi til dæmis lagt til við BWS að fyrirtækið hætti að bjóða upp á sjóflutninga til og frá Íslandi yfir vetrartímann. Í málinu er ekki tekin afstaða til háttsemi BWS.

Samskip hafna niðurstöðunni


BWS hefur átt í samstarfi við Smyril-Line, útgerð Norrænu frá árinu 1999. Árið 2005 komu félögin á fót flutningafyrirtækinu Smyril Blue Water. Samkeppniseftirlitið segir að á þeim tíma sem samráðið stóð yfir hafi BWS leigt pláss í Norrænu af Smyril-Line. Frá árinu 2017 hefur Smyril-Line jafnframt verið með áætlunarsiglingar til Þorlákshafnar.

Úrskurðurinn er umfangsmikill, alls rúmar 3000 síður í 15 bindum. Það fyrsta, rúmar 100 síður, inniheldur samantekt um helstu brot. Út frá því má sjá fleiri lýsingar á hvernig samráðinu var háttað í starfsemi fyrirtækjanna á Austurlandi, bæði gagnvart almenningi en líka stórum fyrirtækjum, sérstaklega Alcoa Fjarðaáli. Verðhækkanir á það fyrirtæki eru ein af þungamiðjum samráðsins miðað við hversu löng sú umfjöllun er í skýrslunni. Nánar verður farið yfir það síðar.

Í tilkynningu sem Samskip sendu frá sér í kjölfar birtingu úrskurðarins hafnar fyrirtækið niðurstöðunni. Ályktanir um víðtækt og þaulskipulagt samráð eru sagðar með öllu tilhæfulausar og úr tengslum við gögn og staðreyndir. Félagið muni því ekki una úrskurðinum og leita allra löglegra leiða til að fá honum hnekkt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.