Skip to main content

Reynt að bregðast við blæðingum í austfirskum vegum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 19. maí 2025 16:20Uppfært 19. maí 2025 16:20

Vegagerðin varar við blæðingum á nokkrum stöðum í austfirskum vegum. Reynt er að bregðast við með að bera sand ofan í þar sem blæðir. Bæjarráð Fjarðabyggðar hvetur Vegagerðina til að vera vakandi og tryggja öryggi vegfarenda.


Loftur Jónsson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, segir að eftir hlýindi hafi orðið vart við blæðingar á nokkrum stöðum á Austurlandi. Brugðist sé við með aðvörunum, það er skiltum með ábendingum um að fara varlega og að sanda.

„Við byrjuðum að sanda í síðustu viku og héldum því áfram yfir helgina og í dag. Bílarnir sem annars eru notaðir til hálkuvarna eru fylltir af sandi og fara hægt yfir til að reyna að ná örugglega yfir,“ segir Loftur.

Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar hefur í dag orðið vart við blæðingar á Fagradal, Fjarðarheiði, Jökuldal og í Berufirði. Loftur segir að blæðingarnar geti oft byrjað fyrirvaralaust og því sé gott fyrir Vegagerðina að fá ábendingar frá vegfarendum þegar vart verði við þær.

Bæjarráð hefur áhyggjur


Bæjarráð Fjarðabyggðar samþykkti á fundi sínum í morgun sérstaka ályktun um blæðingarnar. Í henni er lýst áhyggjum af miklum blæðingum eins og raunin hafi verið undanfarin ár. Slíkt skemmi ökutæki og raski öryggi vegfarenda. Vegagerðin er hvött til að grípa til ráðstafana til að draga úr ástandinu og tryggja öryggi.

„Það hefur orðið vart við þetta undanfarin ár og við vildum byrja sumarið á að brýna fyrir Vegagerðinni að það þyrfti að vera til staðar verklag þannig brugðist sé fyrr við en síðustu ár,“ segir Ragnar Sigurðsson, formaður bæjarráðs Fjarðabyggðar.

„Fyrst og fremst veldur þetta skemmdum á lakki en einnig hafa undirvagnar, einkum á stærri bílum, farið illa,“ svarar Ragnar spurður um dæmi um skemmdir af blæðingunum.

Erfitt að finna orsök blæðinganna


Óvíst er nákvæmlega hvað veldur því að olían og steinefnin í klæðningunni losna í sundur í miklum hita og umferð þannig veginum „blæðir“ olíu. Ýmsar kenningar hafa verið viðraðar, svo sem að við snjómokstur rispist grófefnið upp úr klæðningunni eða efnisval skipti máli.

Stærsta deiliefnið hefur verið hvítspritt, sem blandað var við klæðninguna en hætt að nota af umhverfisástæðum fyrir nokkrum árum. Í viðtali við RÚV í síðustu viku benti Jón Helgi Helgason, verkefnastjóri hjá Vegagerðinni, á að bræðslustig þess væri enn lægra en lífolíunnar sem notuð er í dag. Þess vegna væri ástandið enn verra með hvítsprittinu.

Ljóst er að malbik þolir hita og álag betur en klæðningin sem notuð er á flesta vegi hérlendis. Það er hins vegar margfalt dýrara. Loftur bætir við að þá virðist sem ekki sé nóg að leggja nýtt lag af klæðningu yfir kafla sem blæða, heldur þurfi að taka upp undirlagið því dæmi séu um að blæðing fari af stað í neðri lögum og nái upp í gegn. „Það getur verið mjög erfitt að eiga við þetta.“