Ráðherra bjartsýnn á olíuvinnslu á Drekasvæðinu

althingi_roskva.jpgKatrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segist bjartsýn á að olíuvinnsla Íslendinga á Drekasvæðinu verði að veruleika. Annað útboð olíuleitar á Drekasvæðinu hefst 1. ágúst á næsta ári og stendur í fjóra mánuði. Ákvörðun Norðmanna um að friðlýsa Jan Mayen kann að opna svæðum á Norðausturlandi möguleika á að þjónusta leit á norska hluta Drekasvæðisins.

 

„Ég er bjartsýn fyrir hönd framtíðar olíuvinnslu Íslendinga tengda Drekasvæðinu og held að hún verði að veruleika, jafnvel í okkar tíð sem sitjum á Alþingi sem stjórnmálamanna,“ sagði Katrín í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Hún sagði að verið væri að fara yfir þau lög sem drógu úr áhuga leitaraðila í fyrra útboðinu í fyrra og hefði trú á að áhugi þeirra færi að glæðast á ný. Samstarf hefur verið við Norðmenn um undirbúning leitar og rannsóknir á svæðinu. Hvor aðili á rétt á 25% nýtingarrétt í lögsögu hins við Jan Mayen.

Katrín sagði Norðmenn hafa haldið áfram djúpborunum eftir olíuslysið mikla á Mexíkóflóa í vor en líklegt sé að það leiði til endurskoðunar á lögum um olíuborun á hafsbotni um heim allan. Hún hafnaði því að Norðmenn væru komnir framúr Íslendingum í undirbúningi olíuvinnslu á svæðinu.

Birkir Jón Jónsson, málshefjandi, spurði út í möguleika byggða á Norðausturlandi til að þjónusta leit á norska hluta Drekasvæðisins þar sem Norðmenn hafa ákveðið að friðlýsa Jan Mayen. Hann sagði mikla „hagmuni og tækifæri felast í því þótt við finnum ekki olíuauðlind á Drekasvæðinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.