Ríflega 1,1 milljarða hagnaður hjá Múlaþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. apr 2022 16:22 • Uppfært 13. apr 2022 16:28
Rekstrarniðurstaða Múlaþings, fyrir afskriftir, fjármagnsliðið og tekjuskatt var jákvæð um 1,1 milljarð króna á síðasta ári. Staðan breytist þegar tekið er tillit til þessara þátta en hún er heldur betri hjá samstæðunni en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun.
Þetta kemur fram í ársreikningi Múlaþings sem tekinn var til fyrstu umræðu í bæjarstjórn í dag. Sveitarsjóður skiptist í tvennt, A-hluta sem eru lögboðin eða almenn verkefni sem fjármögnuð eru með skattfé, hins vegar B-hluti sem eru sérverkefni fjármögnuð með sérgjöldum, til dæmis veitur. Saman mynda þessir hlutar samstæðu.
Rekstrartekjur Múlaþings námu alls 7,86 milljörðum, þar af 6,7 í A-hlutanum. Á móti voru rekstrargjöldin 6,85 milljarðar alls, þar af 6,46 í A-hlutanum. Laun og tengd gjöld voru 4,25 milljarðar hjá samstæðunni, þar af 4,1 hjá A-hlutanum eða rúm 60% af tekjum.
Er það tæplega 100 milljónum meira en reiknað var með í áætlun í þeim hluta og tæplega 300 milljóna hækkun frá í færra. Stöðugildum hjá sveitarfélaginu fjölgaði úr 417 í 404. Á móti hækkar útsvar og fasteignaskattar um 500 milljónir frá í fyrra eða 300 milljónir umfram áætlun.
Þetta þýðir að afgangur af rekstri nemur sem fyrr segir rúmum 1,1 milljarði króna, þar af 316 milljónum hjá A-hlutanum. Heldur syrtir í þegar horft er til fjármagnsgjalda og afskrifta. Afkoman verður þá neikvæð upp á 288 milljónir í A-hlutanum en verður 92 milljónir í afgang hjá samstæðunni. Í A-hlutanum er það nokkru verri afkoma en lagt var upp með í áætlun, reiknað var með 250 milljóna tapi en betri í samstæðunni þar sem búist var við fjögurra milljóna hagnaði.
Í tilkynningu Múlaþings segir að niðurstaða samstæðunnar litist af mikilli hækkun lífeyrisskuldbindinga vegna breytinga á lífslíkum og auknu greiðsluhlutfalli sveitarfélagsins.
Hvað varðar veltufé frá rekstri er staðan góð, þar er um einn milljarður um heildina, um 240 milljónum meira en reiknað var með. Í A-hluta er afgangurinn 438 milljónir.
Fræðslu- og uppeldismál er sá málaflokkur sem tekur mest til sín, 3,16 milljarða í fyrra eða 53,2% af skatttekjum. Þar á eftir kemur félagsþjónustan með 620 milljónir eða 10%. Í B-hlutanum eru það HEF veitur og hafnarsjóður sem koma best út. Hagnaður veitnanna er 250 milljónir og 225 hjá hafnarsjóði.
Skuldir Múlaþings námu alls 10,8 milljörðum en eignir 13,5. Skuldir hækka um 373 milljónir en eru þó vel innan marka reglna um fjármál sveitarfélaga, eða 99%.