Ríflega tuttugu austfirsk fyrirtæki á Mannamótum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 24. mar 2022 09:13 • Uppfært 22. mar 2022 15:16
Rfílega tuttugu ferðaþjónustufyrirtæki af Austurlandi sækja í dag Mannamót Markaðsstofa landshlutanna, stærstu ferðakaupstefnu Íslands.
„Við erum með 21 fyrirtæki sem dreifast um allan fjórðunginn frá Djúpvogi til Vopnafjarðar,“ segir Sigfinnur Björnsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú en stofnunin heldur utan um þátttöku austfirsku fyrirtækjanna.
Til viðbótar verður bjórsmakk frá austfirsku bugghúsunum þremur þótt fulltrúar þeirra sæki ekki kaupstefnuna. Þá verður gjafaleikur á austfirska svæðinu þar sem dregnar verða út tvær ferður um Austurland sem fyrirtækin hafa sett saman.
Kaupstefnan var haldin árlega en þó síðast í janúar 2020 þar sem aflýsa þurfti henni vegna Covid-faraldursins í fyrra. Hún hefur skipað sér sess sem fjölmennasti viðburðurinn í íslenskri ferðaþjónustu.
Þar gefst samstarfsfyrirtækjum markaðsstofanna í öllum landshlutum tækifæri til að kynna sig fyrir fólki í ferðaþjónustu sem starfar á höfuðborgarsvæðinu og koma á nýjum viðskiptasamböndum og styrkja þau sem fyrir eru.
„Ég held það skipti miklu máli að gefa mætt og komið sér á framfæri. Þarna gefst tækifæri til að ræða við fjölda stórra ferðaskrifstofa, bæði innlendra og erlendra. Einnig myndast þanna tengsl við svipuð fyrirtæki í örðum landshlutum sem innan svæðis. Við að austan hittumst öll í lok dags í kvöldmat þar sem við förum yfir daginn og kynnumst betur,“ segir Sigfinnur.
Á Mannamótum eru 250 fyrirtæki með bás og von er á allt að 800 gestum. Upphaflega stóð til að halda sýninguna á sínum tíma í janúar en af því varð ekki vegna sóttvarnatakmarkana. „Við erum mjög ánægð með þátttökuna, einkum að enginn hafi heltst úr lestinni þótt henni seinkaði um tvo mánuði,“ segir Sigfinnur.
Mannamót eru haldin í Kórnum í Kópavogi milli klukkan 12 og 17 í dag.