Rigning sem vænta má á meira en 100 ára fresti í Neskaupstað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. sep 2023 08:01 • Uppfært 20. sep 2023 08:06
Úrkomu eins og þeirrar sem steyptist yfir Neskaupstað í gær má vænta þar á ríflega 100 ára fresti. Engar tilkynningar hafa enn borist um skriðuföll eða aðrar vatnsskemmdir af Austfjörðum eftir nóttina. Á flestum stöðum er stytt upp.
Á vef Bliku er greint frá því að frá hádegi til miðnættis í gær hafi úrkoman í Neskaupstað verið 116,2 mm og 171 mm yfir sólarhringinn. Það er mesta úrkoma sem mældist á landinu. Sé mánudagurinn tekinn inn í myndina fer úrkoman upp í 279 mm. Hjá Bliku kemur fram að slíkt úrkomumagn sé langt yfir því sem reiknað sé með í atburðum með 100 ára endurkomutíma fyrir staðinn.
Á Austfjörðum hætti almennt að rigna um klukkan tvö í nótt. Eskfirðingar fengu þó nokkra tíma af úrkomu í viðbót.
Hjá ofanflóðadeild Veðurstofunnar fengust rétt fyrir klukkan átta í morgun þær upplýsingar að engar tilkynningar hefðu enn borist um nýjar aurskriður eða aðrar skemmdir af völdum vatns. Hins vegar er viðbúið að þær berist þegar birtir og fólk fer á ferðina.
Engar ákvarðanir hafa enn verið teknar um afléttingu rýminga eða hættustigs. Ofanflóðadeildin fundar upp úr klukkan átta og klukkan tíu með veðurfræðingi um nýja veðurspá. Þá verður með morgninum fundað með almannavörnum.
Úrkoman var ekki bara bundin við Austfirði því ljóst er að úrkomumet hafa einnig verið slegin á Akureyri.
Mynd úr safni.