Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaganna
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. ágú 2023 16:03 • Uppfært 31. ágú 2023 17:33
Ríkisstjórn Íslands fundaði í hádeginu með fulltrúum frá sveitarfélögunum á Austurlandi. Ýmis mál bar þar á góma. Forsætisráðherra segir hafa verið gagnlegt að hitta fulltrúa Austfirðinga.
Sveitarfélögin sendu tvo fulltrúa hvert, einn frá meirihluta og annan frá minnihluta, auk sveitarstjóra á fundinn. Þá sátu fundinn fulltrúar frá Austurbrú og stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.
Hvert sveitarfélag fékk um tíu mínútur til að fara yfir sín helstu áherslumál. Þar bar margt á góma, meðal annars ofanflóðamál, orkumál, samgöngur, atvinnumál, heilbrigðismál, menntamál og kjördæmaskipan landsins.
Þá var skýrt frá ákvörðunum sem teknar voru á ríkisstjórnarfundi í morgun, þar sem meðal annars var tilkynnt um útboð snjóflóðavarna í Neskaupstað og stuðning við verkefni á Seyðisfirði í kjölfar skriðufallanna þar í desember 2020.
Hefð hefur myndast að ríkisstjórnin fundi á hverju sumri utan Reykjavíkur. Þetta var sjötti fundurinn í þeirri röð en í fyrra var fundað á Vestfjörðum. Að loknum formlegum ríkisstjórnarfundi og viðræðum við sveitarfélögin var óformlegur vinnufundur ríkisstjórnarinnar. Hann er haldinn annars staðar í fjórðungnum.
Það setti mark sitt á daginn að flugi með hluta ráðherra og starfsliðs ríkisstjórnarinnar seinkaði vegna tafa á flugi. Áætlunarvél Icelandair fór einum og hálfum tíma síðar í loftið frá Reykjavík en áætlað var. Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair kom upp tæknilegt atriði sem flugvirkjar þurftu að líta á. Sem betur fer hafi gengið hratt að leysa úr því.
Andrúmsloftið er fínt
Almennt virtist liggja vel á ráðherraliðinu og ekki að sjá að erfiðleikar séu í samstarfinu. Á fundinum tilkynnti Svandís Svavarsdóttir um ákvörðun sína um að framlengja ekki bann við hvalveiðum. Þær geta þá hafist á morgun.
„Andrúmsloftið er fínt eins og sjá má. Þetta er í sjötta sinn þar sem við förum út á land og eigum samtal við sveitarstjórnarfólk. Það er hluti af því sem þessi ríkisstjórn lagði upp með, að vera í góðu sambandi við landið allt.
Mér hefur fundist það gríðarlega gagnlegt, ekki bara að eiga samtalið og hlusta heldur undirbúum við okkur öll. Landshlutinn fær sérstaka athygli og við fáum mjög dýrmætt veganesti inn í framhaldið,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, eftir fundinn.