Risasnekkja á ferð við Austfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 23. júl 2025 07:44 • Uppfært 23. júl 2025 07:47
Snekkjan Akula hefur undanfarna daga vakið athygli Austfirðinga þar sem hún hefur verið á ferðinni. Snekkjan mun vera í eigu bresks auðmanns en ferð hennar til Íslands er í vísindaskyni.
Snekkjan hefur verið á siglingu meðfram Íslandi undanfarna daga og sigldi í nótt frá Seyðisfirði til Djúpavogs. Hún er í vísindaleiðangri um norðurslóðir og kemur líka við á Grænlandi, Noregi, Færeyjum, Skotlandi og austurströnd Bandaríkjanna í ferðinni.
Eigandinn mun vera Jonathan Faiman. Hann starfaði við fjármálamarkaði, meðal annars fyrir Goldman Sachs, þar til hann stofnaði Ocado um síðustu aldamót. Það fyrirtæki sérhæfði sig í heimsendingu úr matvörubúðum með góðum árangri. Faiman seldi sig að mestu úr fyrirtækinu árið 2010 og hefur fengist við ýmsar fjárfestingar síðan.
Tæplega 60 metra löng
Snekkjan er smíðuð á Ítalíu í fyrra og er sögð hafa kostað yfir 30 milljónir punda eða um 5 milljarða króna. Hún er skráð á Cayman-eyjum en var geymd í Portsmouth á Englandi. Í samtali við tímaritið Boat International er haft eftir eigandanum, sem er þó ekki nafngreindur, að hún veki gjarnan athygli og rati í staðarblöð og á samfélagsmiðla því fáar snekkjur séu á ferðinni utan Miðjarðarhafsins.
Hún vekur líka athygli fyrir stærð, því hún er í hópi 150 stærstu snekkja heims þar sem hún er 59,4 metra löng. Hún er 11,4 metra breið, ristir 3,5 metra og nær allt að 15,5 hnúta hraða. Um borð er rými fyrir 10 gesti og 13 manna áhöfn.
Öflugur búnaður og mikill lúxus
Á sérstakri heimasíðu fyrir snekkjuna er kostum hennar ítarlega lýst. Hún er sögð einstaklega traust og byggð til að þola langar ferðir við erfiðar aðstæður. Aðalvélar hennar eru tvær en alls eru í henni fimm dísilvélar og fimm vatnsþétt rými.
Snekkjan er framúrstefnuleg. Hún á að vera 95% úr endurnýtanlegu efni og um borð er sérstakur sorpfrystir. Hún er hlaðin lúxus, opið rými á þilfari er yfir 550 fermetrar, meðal annars er sérstakt þilfar fyrir eigandann. Um borð er líkamsræktarsalur, nuddherbergi og upphituð sundlaug. Hún er ríkulega búin, meðal annars tveimur hraðbátum, kajökum og margvíslegum búnaði til köfunar. Myndir innan úr snekkjunni sýna ennfremur margvíslega listmuni.
Akula á Seyðisfirði í gær. Mynd: Zuhaitz Akizu