Rólegt fyrstu viku hreindýraveiða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. júl 2023 11:22 • Uppfært 20. júl 2023 11:24
Búið er að fella 15-20 hreindýrstarfa þá tæpu viku sem liðin er síðan hreindýraveiðar hófust. Veiðimenn eru hvattir til að huga vel að leyfum sínum áður en haldið er af stað.
Hreindýraveiðar hófust að vanda laugardaginn 15. júlí. Um helmingur þeirra dýra sem veiddur er náðist fyrsta sólarhringinn er rólegra hefur verið það sem af er vikunni.
„Þetta hefur gengið vel eins og er. Það er rólegt eins og vanalega í tarfaveiðinni,“ segir Jóhann Guttormur Gunnarsson, sérfræðingur Umhverfisstofnunar í hreindýraveiðum.
Hann segir tarfana líta þokkalega út. „Mér er sagt að tarfarnir séu seinir til að fara úr vetrarfeldinum en séu samt vænir. Því er um að gera að nota tímann sem fyrst.“
Veiðar á kúm hefjast svo 1. ágúst. Tarfaveiðunum lýkur 15. september en þann 20. á kúnum. Aftur eru leyfðar veiðar á kúm í nóvember í Sveitarfélaginu Hornafirði. Á syðsta veiðisvæðinu eru í gildi tilmæli um að fella dýrin sem vestast til að hindra að þau leiti yfir sauðfjárveikivarnalínu sem dregin er við Jökulsá á Breiðamerkursandi.
Í ár má veiða 901 dýr. Það er mun minna en síðustu ár. Til samanburðar mátti veiða 1021 dýr í fyrra. Mestu munar um að nánast hefur verið skrúfað fyrir veiðar á svæði 2, Fljótsdalsheiði og nágrenni, þar sem fá dýr hafa verið þar síðustu ár.
Eins og undanfarin ár eru í gildi tilmæli til veiðimanna um að veiða ekki mjólkandi kýr fyrr en eftir miðjan ágúst. Jóhann segir þeim tilmælum hafa verið vel sinn en setur þó þann fyrirvara að almennt færist ekki kraftur í veiðarnar fyrr en eftir 15. ágúst. Veiðimenn hafa hins vegar ítrekað verið hvattir til að nýta veiðitímabilið sem til að forðast vandræði, svo sem þokudaga, undir lok tímans.
Þá minnir Jóhann veiðimenn á að tryggja að öll leyfi séu í gildi og meðferðis áður en haldið er af stað. Athuga má stöðu þeirra og nálgast afrit ef þarf á Island.is.