Rúmar 162 milljónir til ferðamannastaða á Austurlandi
Alls komu rúmar 162 milljónir til sex mismunandi verkefna á Austurlandi við úthlutun úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Langstærsti styrkurinn vegna frekari uppbyggingar við Stuðlagil.
Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir tilkynnti úthlutanir sjóðsins þetta árið í lok síðustu viku en að þessu sinni voru tæpar 539 milljónir í heildina til skiptanna úr sjóðnum. Styrkir austur á land nema því um 30% af úthlutun árins. Sjóðnum er ætlað að stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun ferðamannastaða en jafnframt stuðla að jafnari dreifingu ferðamanna um landið.
Félagið Jökuldalur slf. fékk langhæsta styrkinn upp á 90 milljónir króna en þeim peningum á að verja til að bæta öryggi ferðafólks og efla náttúruvernd við Stuðlagilið. Sjóðurinn hefur undanfarin fjögur ár veitt um 244 milljónum alls til uppbyggingar á þessum vinsælasta ferðamannaastað Austurlands.
Sveitarfélagið Múlaþing fékk rúmar 28 milljónir króna til uppbyggingar gönguleiðar við Eggin í Gleðivík á Djúpavogi, Fljótsdalshreppur rúmlega 15 milljónir til náttúruverndar og stígagerðar við Hengifoss og þá fékk Fjarðabyggð tvo styrki. Annars vegar upp á 25 milljónir króna vegna gerðar göngustíga við Streitishvarf í Breiðdalsvík og hins vegar tæplega 2,5 milljónir vegna hönnunarvinnu við Bleiksárfoss í Eskifirði. Þá hlaut minjasafnið Burstarfell 900 þúsund krónur til að stækka bílastæði og auka aðgengi fatlaðra.