Rúmar 240 milljónir austur úr Framkvæmdasjóði ferðamálastaða
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. maí 2025 11:20 • Uppfært 02. maí 2025 11:28
Verkefni á Austurlandi fengu um 242 milljónir þegar úthlutað var úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða í vikunni. Framkvæmdir við Stuðlagil fengu tæpar 90 milljónir sem er hæsti einstaki styrkurinn á landsvísu í ár. Rúmum 90 milljónum var veitt til verkefna í Fjarðabyggð að þessu sinni.
Framkvæmdir á vegum Jökuldals slf., sem er félag landeigenda við Grund við norðanvert gilið, fá 89,97 milljónir króna í ár. Styrkurinn er ætlaður til að setja upp útsýnispall, göngubrýr og þrep. Vinnan felst í yfirborðsfrágangi eftir jarðvinnu, sáningu og tyrfingu, stálsmíði á staðnum, lokajarðvinnu, undirstöðum og merkingum.
Markmiðið er náttúruvernd og bætt öryggi ferðafólks. Hann á að duga til að ljúka framkvæmdum sem hófust vorið 2024 en Jökuldalur fékk einnig hæsta styrkinn í fyrra upp á 90 milljónir króna.
Búðarásfoss, Streitishvarf og Bleiksárfoss
Þrjú verkefni í Fjarðabyggð fá samanlagt tæpar 96 milljónir króna, sem er óvenju góð úthlutun fyrir sveitarfélagið. Hæsti styrkurinn rennur til framkvæmda við Búðarárfoss á Reyðarfirði, 36,4 milljónir. Styrkurinn er ætlaður til að gera malarstíga og dvalarsvæði. Um er að ræða fyrsta áfanga á svæðinu en styrkurinn á að nýtast til að hefja undirbúning næsta áfanga sem er að gera verkteikningar og lýsingar á pallastíg og útsýnispalli.
Við Streitishvarf, syðst í Breiðdalsvík, er verið að bæta aðkomu og stýra aðgengi gesta að Streitisvita til að vernda gróður. Þangað er veitt 32,1 milljón til að koma upp bílastæði, timburpöllum, áningarstað og merkingum.
Við Bleiksárfoss á Eskifirði er talsverð umferð án innviða. Þar er farnir að myndast hentistígar auk þess sem fallhætta er sums staðar á leiðinni. Veitt er 27,3 milljónum til að fullhanna og hefja framkvæmdir við upphafsáningarstað, göngustíg að sunnanverðu og göngubrú yfir ána. Um er að ræða fyrsta áfanga.
Tuttugu milljónir í stígagerð við Hengifoss
Fljótsdalshreppur fær um 25 milljónir í sinn hlut í ár til þriggja verkefna, þar af tveggja sem tengjast Hengifosssvæðinu. Til að hanna og gera átta áningarstaði á leiðinni við fossinn er veitt 12,4 milljónum. Í lýsingu segir að verið sé að stækka og endurhanna vinsælustu áningarstaðina á leiðinni. Til að endurbæta stíga og fjölga merkingum á svæðinu er veitt 8,1 milljón. Er um að ræða áframhald á uppbyggingu og endurbótum á stígakerfi í kringum Hengifossá.
Þá fær hreppurinn 3,5 milljónir til að hanna nýjan áfangastað við Bessastaðaárgil og Melarétt og byrja á brýnustu framkvæmdum, sem er að stika gönguleið, setja upp skilti sem bætir öryggi og verndar gróður. Nánar segir um framkvæmdina að umferð á svæðinu hafi aukist mikið en þar séu engir innviðir. Umferðin ógni því náttúrunni og slysahætta sé fyrir hendi.
Vaxandi umferð að Snædalsfossi
Til framkvæmda við Snædalsfoss í Hamarsfirði, upp af Bragðavöllum, er veitt 14,4 milljónum. Til stendur að grófhefla yfirborðslag á göngustíg, leggja ristar eftir honum að áningarstíg við fossinn og gera stíginn almennt auðveldari yfirferðar, meðal annars með drenlögnum. Verkefninu er meðal annars ætlað að stuðla að lengingu ferðamannatímabilsins.
Að lokum fá tvö minni verkefni um tvær milljónir hvort. Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fær 2,1 til að smíða, flytja og leggja fleiri brýr sem sérstakar eru ætlaðar fyrir votlendi á gönguleiðina í Víknaslóðum þar sem hún liggur í landi Breiðuvíkur.
Þá fær Jöklarannsóknafélag Íslands styrk til að gera þurrsalerni fyrir ferðafólk við skála þess í Kverkfjöllum.
Tæpur hálfur milljarður kominn í Stuðlagil
Sem fyrr segir er þetta annað árið í röð sem hæsti einstaki styrkurinn úr Framkvæmdasjóðnum er veittur til framkvæmda við Stuðlagil. Tvisvar áður hafa styrkir þangað verið meðal þeirra hæstu á landsvísu þótt þeir hafi ekki verið þeir allra hæstu.
Frá árinu 2018 hefur verið veitt hátt samtals 475,4 milljónir króna til framkvæmda á svæðinu. Af þeim hefur 421 milljón verið veitt til framkvæmda í landi Grundar en 54,4 milljónum til vinnu í landi Klaustursels við austanvert gilið.