Rúmlega 1,2 milljarða hagnaður hjá Fjarðabyggð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. apr 2022 14:31 • Uppfært 01. apr 2022 14:31
Rúmlega 1,2 milljarða hagnaður varð af rekstri Fjarðabyggðar á síðasta ári sem nær alfarið skýrist af góðu gengi hjá B-hluta sveitarsjóðs. Fyrri umræða um ársreikninginn fór fram í bæjarstjórn í gær.
Samkvæmt ársreikningnum nema tekjur A og B hluta samtals 8.746 milljónum og hækka um 40 milljónir milli ára. Þar af nema rekstrartekjur A-hluta 6.654 milljónum. Rekstrargjöld eru samanlagt 7.513 milljónir, þar af 6.493 í A-hlutanum.
Þetta þýðir að rekstrarniðurstaðan er jákvæð um rúma 1,2 milljarða í heildina, þar af um 160 milljónir í A-hlutanum. Staðan breytist hins vegar þegar afkoman er skoðuð eftir afskriftir og fjármagnsgjöld, tap A-hluta er þá 437 milljónir en hagnaður samstæðunnar 222,7 milljónir.
Myndin batnar á ný þegar horft er á veltufé frá rekstri. Það er jákvætt um tæpar 400 milljónir í A-hluta og rúma 1,3 milljarða í heildina. Framlegð er jákvæð um 16,8% hjá samstæðunni og um 7,4% í A-hluta.
A-hluta sveitarsjóðs er gjarnan lýst sem þeim lögboðnu, eða almennu verkefnum, sem sveitarfélagið sinnir og fjármagnar með skatttekjum. Í B-hlutanum eru fyrirtæki eða sérverkefni sem fjármögnuð eru með sértekjum, svo sem hafnarsjóður og veitur.
Fram kemur að hagnaður hafnarsjóðs, að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnskostnaðar, er 360 milljónir, 210 milljónir af félagslegum íbúðum og 85 milljónir hjá vatnsveitu. Á móti kemur rúmlega 82 milljóna tap af sorpstöð.
Laun og launatengd gjöld eru 4,8 milljarðar, þarf af 4,2 hjá A-hluta og hækkar um á fjórða hundrað milljón króna. Hjá sveitarfélaginu fjölgar um eitt stöðugildi og voru 402 í árslok. Þá eru breytingar á lífeyrissjóðsskuldbindingum skráðar 550 milljónir í heildina, þar af 520 í A-hlutanum.
Af einstökum málaflokkum taka fræðslu- og uppeldismál mest til sín, 3,2 milljarða eða um 54%. Næst eru æskulýðs- og íþróttamál með tæpar 960 milljónir og félagsþjónustan með um 840 milljónir.
Eignir námu 16,7 milljörðum króna, þar af fastafjármunir 15,6 milljörðum. Afborganir lána og leigu voru 777 milljónir. Eigið fé var 6,5 milljarðar en heildarskuldir 10,2 milljarðar.