Rúmlega 200 milljóna tekjutap vegna loðnubrests í Fjarðabyggð

Búast má við að tekjur Fjarðabyggðar verði 210-240 milljónum undir áætlun ársins þar sem engin loðna veiddist í byrjun árs. Vopnafjarðarhreppur hefur einnig orðið fyrir talsverðum tekjumissi.

Bæjarráð Fjarðabyggðar tók á mánudag fyrir minnisblað fjármálastjóra um áætluð áhrif loðnubrests. Lykilniðurstaðan er að tekjur sveitarfélagsins verði í ár 210-240 milljónum undir því gert var ráð fyrir fjárhagsáætlun beinlínis vegna loðnubrestsins.

Mestu munar um útsvarstekjur. Í minnisblaðinu segir að launagreiðslur stóru sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja: Síldarvinnslunnar, Eskju og Loðnuvinnslunnar, hafi dregist saman um 753 milljónir á fyrstu fjórum mánuðum ársins borið saman við síðasta ár sem þýðir um 200 milljóna lækkun til sveitarfélagsins í formi útsvarsgreiðslna.

Ýmsir fyrirvarar eru þó gerðir við útreikningana en sérstaklega samanburð milli ára því loðnuvertíðin 2023 var sögulega góð. Áætlanir gerðu þó ráð fyrir meðalvertíð.

Á móti var kolmunnavertíðin í ár sögulega góð en það vegur ekki upp á móti loðnunni sem er mun verðmætari fiskur. Yfir árið er áætlað að 162 milljónir muni vanta upp í áætlaðar útsvarstekjur Fjarðabyggðar.

Hinn hluti tekjutapsins er hlutdeild hafnarsjóðs sem verður af aflagjöldum og vörugjöldum af útfluttum afurðum. Síðarnefnda hlutann er sérstaklega erfitt að áætla þar sem miklar birgðir voru frá loðnuvertíðinni 2023 sem verið hafa í sölu. Þá vantar ítarlegri sundurliðanir á bæði lönduðum afla og útflutningi. Fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins eru vörugjöldin átta milljónum lægri en í fyrra.

Miðað við fyrstu fjóra mánuði ársins eru innheimt aflagjöld af uppsjávarafla í Fjarðabyggð 78,3 milljónum lægri en á sama tíma í fyrra. Miðað við sömu hlutfallsdreifingu og í fyrra stefnir í að aflagjöldin verði 58 milljónum undir áætlun ársins.

Framkvæmdum ekki frestað enn


Þessar tölur lágu fyrir í grófum dráttum þegar sjómannadagsblað Austurgluggans kom út í byrjun mánaðarins. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, sagði að loðnubresturinn hægði á öllum umsvifum í hagkerfinu í Fjarðabyggð, til dæmis héldu verktakar frekar að sér höndum.

Ekki hafa verið teknar ákvarðanir um frestum framkvæmda en unnið er að bryggjuframkvæmdum á Fáskrúðsfirði, viðgerðum á Eskifjarðarskóla og snjóflóðavörun við Neskaupstað. Allt eru þetta framkvæmdir sem voru hafnar áður en loðnan brást eða ómögulegt að fresta.

Á sama tíma lágu fyrir grófar áætlanir frá Vopnafirði um 50-60% samdrátt í tekjum hafnarsjóðs frá í fyrra. Framkvæmdir við veiðihús Six Rivers Iceland hafa að einhverju vegið upp á móti loðnubrestinum. „Sjávarútvegurinn er aðalstoð byggðarlagsins. Þjónustuaðilar treysta líka á vertíðina. Við þurfum að byggja upp fjölbreyttari atvinnuhætti og horfum meðal annars til ferðaþjónustunnar,“ sagði Valdimar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.