Rúmlega 90 vinnuslys árlega á Austurlandi
Rúmlega 90 vinnuslys verða árlega að meðaltali á Austurlandi og tíu slys hafa þegar orðið mánaðarlega fyrstu þrjá mánuði þessa árs.
Austurfrétt óskaði upplýsinga frá Vinnueftirlitinu um fjölda skráðra vinnuslysa í fjórðungnum síðustu árin en Vinnueftirlitið skráir slíkt einungis ef slys verður vegna vinnutengdra gjörða hvort sem það er inni á starfsstöð eða utan og starfsmaður er óvinnufær í kjölfarið í einn eða fleiri daga.
Alls hafa 469 vinnuslys orðið austanlands frá og með árinu 2017. Flest slysin árið 2018 eða 103 talsins en fæst 2020 þegar 81 einstaklingar þurftu læknisaðstoð vegna vinnuslyss.
Ekki reyndist hægt að greina tegundir slysanna eða alvarleika né heldur hvort mörg slys verða hjá tilteknum fyrirtækjum eða dreifast á mörg.
Heimsóknum fækkar mikið
Eftirlit Vinnueftirlitsins með vélum og fyrirtækjum hefur minnkað mikið yfir sama tímabil. Farið var í eftirlitsheimsóknir til fyrirtækja í 251 skipti árið 2018 hér austanlands en aðeins 24 heimsóknir allt síðastliðið ár.
Orsök þess, að sögn Veru Einarsdóttur, upplýsingarfulltrúa Vinnueftirlitsins, er að illa gekk að manna stöður hjá stofnuninni 2020 og 2021. Það skýri mikið hrap í heimsóknum þó tekist hafi að halda í horfinu varðandi vélaskoðanir.
Mynd: Vinnueftirlitið fylgist vel með að lögum og reglum sé fylgt í hvívetna á vinnustöðum landsins en tíðni slysa er engu að síður töluverður. Mynd Vinnueftirlitið