Rúmlega ellefu milljarða króna hagnaður hjá Síldarvinnslunni
Síldarvinnslan hagnaðist vel á liðnu ári en hagnaður varð á starfseminni það ár sem nam alls 11,1 milljarði króna. Af því fara 3,4 milljarðar króna í arðgreiðslur til eigenda og 530 milljónir króna í veiðigjöld til ríkisins.
Ársreikningur Síldarvinnslunnar (SVN) fyrir árið 2021 var birtur í gær en fyrirtækið fór sem kunnugt er á markað í maímánuði það ár.
Reksturinn í heild reyndist mjög góður að sögn forstjórans, Gunnþórs B. Ingvasonar, og mjög mæddi á starfsfólki vegna anna í fiskiðjuveri allan síðari helming ársins.
„Lykillinn að góðum árangri félagsins er öflugt starfsfólk sem hefur lagt mikið á sig í störfum á árinu til að ná þeim árangri sem raun ber vitni. Það er búið að mæða mikið á starfsfólkinu; vertíðir hafa verið langar, miklar fjárfestingar, félagið skráð á markað og ný félög bæst í samstæðuna. Auk þess höfum við ekki farið varhluta af Covid sem hefur haft verulega aukið álag á starfsfólk og starfsemina. Starfsfólkið hefur lagt sig fram á öllum vígstöðvum og staðið sig með mikilli prýði og sýnt mikla samstöðu.“
Forstjórinn sagði efnahag fyrirtækisins nægilega sterkan til að takast á við ýmsar þær sveiflur sem einkenna íslenskan sjávarútveg og gera fyrirtækinu ekki síður kleift að takast á við krefjandi áskoranir eins og hörmungarnar í Úkraínu á liðnum vikum.
Eigið fé SVN var um 55 milljarðar króna um síðustu áramót.