Skip to main content

„Rússar brjóta okkur aldrei á bak aftur“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. mar 2022 10:06Uppfært 11. mar 2022 10:07

„Það er enginn einasti vafi í okkar huga að Rússar munu aldrei ná að brjóta okkur á bak aftur í Úkraínu,“ segir Alona Perepelytsia, íbúi á Egilsstöðum.

Hún hefur búið hér austanlands um nokkurt skeið, komið sér vel fyrir og í síðustu viku fékk hún til sín móður sína, Svitlönu, og systur, Oleksöndru, ásamt þremur börnum þeirrar síðarnefndu en þau höfðu þá flúið hingað til lands frá stríðsátökunum í heimalandinu. Þau eru fyrstu flóttamennirnir frá Úkraínu sem komu austur á land. Eiginmennirnir hins vegar fastir heima því engir karlmenn á aldrinum 18 til 60 mega yfirgefa landið meðan herlög vara.

Ítarlegt viðtal er við flóttafólkið í nýjasta hefti Austurgluggans sem komið er út en aðspurðar út í átökin sem stigmagnast víða í Úkraínu eru mæðgurnar harðar á því að Rússar muni ekki hafa erindi sem erfiði með innrás sinni. Sérstaklega ekki nú þegar fyrstu hergögnin og aðrar nauðsynjar séu farin að berast til landsins frá öðrum löndum í einhverjum mæli.

„Það hefur vantað mikið upp á viðbrögð nágranna- og vinaþjóða fram að þessu. Allir hafa boðið aðstoð frá fyrsta degi en svo tekur eilífð að standa við allt saman. Við höfum mikið til þurft að bjarga sér sjálf frá byrjun stríðsins og ekki bara gert Rússum skráveifu heldur beinlínis stöðvað sóknir þeirra á allnokkrum svæðum,“ segir Oleksandra.

Undir það tekur móðir þeirra systra, Svitlana Perepelytsia, en hún er fædd og uppalin við Úralfjöll og er því rússnesk sjálf. „Það skilur enginn þetta stríð og þar meðtaldir vinir og ættingjar í Rússlandi. Fólk fær annaðhvort rangar fréttir af þessu eða engar fréttir. Þegar litið er til þess hve margir báðu megin eiga náin tengsl þvert yfir landamærin verða stríðsátök enn fáránlegri.“

Formlegur her Úkraínu telur um 180 þúsund hermenn en tug- ef ekki hundruð þúsunda annarra almennra borgara taka virkan þátt í átökum og andspyrnu gegn Rússum á hverju einasta svæði landsins.

Mynd: Svona var umhorfs í heimabæ Oleksöndru, Irpin, áður en hún afréð að leggja á flótta. Mynd Oleksandra Perepelytsia