Skip to main content

Rýming áfram í gildi á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. jan 2024 08:45Uppfært 02. jan 2024 09:40

Rýming vegna snjóflóðahættu á Seyðisfirði er enn í gildi og má búast við að svo verði fram eftir degi. Töluverð úrkoma var á svæðinu í nótt og er einnig í kortunum í dag. Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðavakt Veðurstofunnar er gert ráð fyrir að rýming muni gilda í það minnsta þar til úrkoma hefur gengið niður að fullu. 

Rýmt var á tveimur svæðum á Seyðisfirði í gær vegna mikillar úrkomu, en óvissustig var og er í gildi á Austfjörðum öllum. Um er að ræða reiti 4 og 6, þar sem einkum er atvinnuhúsnæði undir. Þó er búið í tveimur húsum á svæðinu og voru þau rýmd strax. Vegurinn undir Strandartindi er þá lokaður. 

Gert var ráð fyrir að rýming myndi gilda fram í morgunsárið í dag en samkvæmt Sveini Brynjólfssyni ofanflóðasérfræðingi á Veðurstofu Íslands má gera ráð fyrir að rýming standi fram á kvöld. Rétt sé að bíða eftir því að úrkomu linni en á meðan að á henni standi sé enn aukin hætta á snjóflóðum. Engar endanlegar ákvarðanir verði þó teknar fyrr en í björtu. 

Sveinn segir þá einnig ástæðu til að fylgjast vel með stöðu mála víðar en á Seyðisfirði, þar eð töluverð úrkoma hafi verið í nótt og hitastig náð frostmarki hátt í fjöllum. Smærri snjóflóð féllu í gær í Norðfirði, meðal annars fyrir ofan byggðina á Neskaupsstað.