Skip to main content

Rýmingum aflétt í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. apr 2024 09:46Uppfært 08. apr 2024 09:47

Veðurstofan hefur aflétt rýmingum, sem gripið var til vegna snjóflóðahættu, í Neskaupstað. Áfram er í gildi rýming á Seyðisfirði.


Þetta var ákveðið eftir fund Veðurstofunnar og almannavarna í morgun. Ekki hefur snjóað jafn mikið yfir helgina og óttast var í fyrstu.

Í Neskaupstað var rýmt á svæði fjögur, sem liggur frá innri enda snjóflóðavarnagarðanna og inn fyrir ofan athafnasvæði Síldarvinnslunnar sem og húsið Þrastarlundur sem stendur þar innan við. Á því svæði eru fyrst og fremst iðnaðarhúsnæði.


Þar er kominn bloti í snjóinn auk þess sem lítill snjór er í neðri hlutum hlíða. Ekki er búist við mikilli úrkomu þar í dag.

Rýming verður áfram í gildi á Seyðisfirði en þar voru hús utarlega í byggðarlagi norðanverðu rýmd. Þar hefur snjóað meira en á Norðfirði. Snjókomu er spáð áfram þar og viðbúið að skafi áfram í norðanátt fram eftir degi. Staðan verður metin aftur síðar í dag.

Ekki hafa borist fréttir af snjóflóðum í veðrinu, en það gæti skýrst að hluta til af lélegu skyggni.

Minnt er á hjálparsíma Rauða krossins, 1717.