Skip to main content

Rýmt undir Strandartindi á Seyðisfirði vegna snjóflóðahættu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 01. jan 2024 17:43Uppfært 01. jan 2024 17:44

Ákveðið hefur verið að rýma hús á tveimur reitum á Seyðisfirði vegna mikillar úrkomu sem skapað hefur snjóflóðahættu. Fyrst og fremst er um atvinnuhúsnæði að ræða. Óvissustig er í gildi á Austfjörðum öllum og vitað um lítil snjóflóð sem hafa fallið.


Á Seyðisfirði eru rýmdir reitir 4 og 6, sem í grófum dráttum er svæðið frá frystihúsinu og út eftir. Samkvæmt tilkynningu lögreglu eru búið í tveimur húsum á svæðinu. Veginum undir Strandartindi hefur verið lokað.

Rýmingin stendur þar til í fyrramálið en á morgun er gert ráð fyrir að dragi úr úrkomunni. Klukkan 17 var úrkoman frá miðnætti komin í 73,5 mm á Seyðisfirði.

Mest er hún á Eskifirði, 76 mm. Í samantekt ofanflóðadeildar Veðurstofunnar segir að í hvassri austanátt hafi snjóað í fjöll á Austfjörðum en rignt á láglendi. Samkvæmt veðurspá verður svo áfram og því má búast við votum snjóflóðum og mögulega krapaflóðum á láglendi þegar líður á kvöldið.

Vitað er um nokkur smærri snjóflóð í Norðfirði, þar af eitt úr Skágili ofan Neskaupstaðar sem stöðvaðist ofan við skógræktina. Líklega hafa fleiri flóð fallið á Austfjörðum síðan í nótt. Hættan minnkar eftir því sem dregur úr úrkomunni á morgun.