Skip to main content

Sagði fordæmingu Múlaþings gegn Rússlandi of harkalega

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. mar 2022 15:33Uppfært 28. mar 2022 10:44

Fulltrúi Miðflokksins í sveitarstjórn Múlaþings, Þröstur Jónsson, telur að nýleg bókun sveitarstjórnar þar sem innrás Rússa inn í Úkraínu er fordæmd og fullum stuðningi lýst við Úkraínu gangi of langt.

Ályktun þess efnis var bókuð á síðasta sveitarstjórnarfundi Múlaþings en sú bókun var í samræmi við bókanir annarra sveitarfélaga og sömuleiðis Evrópusamtaka sveitarfélaga. Bókunin var eftirfarandi:

„Sveitarstjórn Múlaþings fordæmir harðlega innrás Rússa í Úkraínu og brot þeirra á sjálfstæði og sjálfræði þjóðarinnar. Sveitarstjórn lýsir yfir fullum stuðningi við úkraínsku þjóðina og þær aðgerðir er alþjóðasamfélagið hefur gripið til gegn yfirvöldum í Rússlandi. Sveitarstjórn Múlaþings lýsir sig reiðubúna til að koma að aðstoð við fólk á flótta og tekur einróma undir yfirlýsingu Evrópusamtaka sveitarfélaga.“

Þröstur taldi bókunina of harkalega og sagði að Ísland væri hluti af því vestræna alþjóðasamfélagi sem væri með blóð upp að öxlum vegna styrjalda á borð við þá sem varð í Líbíu og hefði skilið það land eftir í rúst.

Setti Þröstur fram eigin tillögu að bókun vegna málsins:

„Sveitarstjórn Múlaþings harmar stríðsástand í Úkraínu sem og annars staðar í heiminu og lýsir yfir samkennd og samhug með almennum borgurum þar sem og annarsstaðar sem þurfa að búa við ofbeldi og yfirgang stjórnvalda, innlendra sem erlendra. Sveitastjórn Múlaþings hvetur alla deiluaðila að leggja niður vopn og setjast að samningaborði, hlusta á kröfur hvers annars, með hag og öryggi almennra borgara að leiðarljósi. Sveitarstjórn Múlaþings lýsir sig reiðubúna til að greiða götu fólks á flótta en leggur til að vanda sé til verka, þannig að fjármunir nýtist sem best í stuðningi við flóttafólkið.“

Tillaga Þrastar var felld með níu atkvæðum.