Skip to main content

Sakfellt fyrir alla ákæruliði í skotárásarmáli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. apr 2022 09:11Uppfært 21. apr 2022 10:46

Árnmar Guðmundsson var í gær dæmdur í átta ára fangelsi fyrir skotárás í Dalseli á Egilsstöðum í lok ágúst í fyrra.


Árnmar var ákærður fyrir tvær tilraunir til manndráps, húsbrot, eignaspjöll, brot í nánu sambandi, gegn barnaverndarlögum, vopnalagabrot og gegn valdstjórninni.

Atburðarásin að kvöldi 26. ágúst í fyrra hófst á heimili Árnmars og sambýliskonu hans í Fellabæ þar sem hann ógnaði henni með skotvopni, áður en hann keyrði að heimili barnsföður hennar og réðist þar inn. Húsráðandi var ekki heima en tveir synir hans sem náðu að flýja út í skóg.

Árnmar skaut á innanstokksmuni og bíla í hlaðinu, auk þess að skjóta að lögreglu en hluti þeirra skota fór í húsið á móti. Eftir umsátur bendi Árnmar haglabyssu að lögregluþjóni sem skaut hann og særði alvarlega.

Dómurinn hefur ekki enn verið birtur en í frétt RÚV segir að Árnmar hafi verið sakfelldur fyrir alla ákæruliði. Þá eru skotvopn hans gerð upptæk auk þess sem hann þarf að greiða skaða- og miskabætur.

Í samtali við Mannlíf í gær sagði verjandi Árnmars að dómi Héraðsdóms Austurlands yrði áfrýjað til Landsréttar. Verjandinn vildi ekki tjá sig mikið um málið en taldi Árnmar eiga að vera sýknaður af ákæru um tilraun til manndráps.

Við aðalmeðferðmálsins í lok febrúar var því haldið fram af hálfu verjandans að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna ásetning Árnmars um að bana húsráðanda í Dalselinu né að skotunum að lögreglu hefði verið ætlað að hæfa hana.

Þar fór ákæruvaldið ekki fram á ákveðna refsingu, lét þess aðeins getið að lágmarksrefsing fyrir tilraun til manndráps væri fimm ára fangelsi.