Saknar fjölskyldu og vina í Úkraínu en elskar íslenskt landslag

Anastasia Gulchenko er í hópi þeirra Úkraínubúa sem flust hafa til Austurlands síðan stríðsrekstur Rússa í landi þeirra hófst fyrir tveimur árum. Anastasia segist una sér vel í vinnunni hjá Lyfju á Egilsstöðum og íslenskri náttúru þótt veran hér fjarri fjölskyldu og vinum reyni stundum á.

„Það eru margir sem hafa spurt mig af hverju ég hafi komið einmitt hingað. Svarið er að ég á þrjá frændur hér, tvo á Borgarfirði og einn á Egilsstöðum. Ég bjó til að mynda hjá einum þeirra fyrstu tvo mánuðina eftir að ég kom. Annars hefði ég kannski endað í Reykjavík,“ segir hin 22ja ára gamla Anastasia.

Hún bjó í Kænugarði þegar innrásin hófst þann 24. febrúar árið 2022 og vaknaði, eins og margir aðrir íbúar Úkraínu, upp við loftvarnaflautur. „Ég man ég vaknaði klukkan sex um morguninn við sírenur og þyt í eldflaugum. Fólkið var óttaslegið.“

Fannst allt vonlaust fyrst


Anastasia hafði þá búið í Kænugarði í fimm ár en fór strax á heimili foreldra sinna í litlum bæ inni sem hún segir vera svo gott sem nákvæmlega í miðju landinu. Hún var þar í viku áður en hún fór til Íslands. Hún segir fyrstu dagana á landinu hafa verið afar erfiða.

„Ég held ég hafði verið hálf þunglynd. Mér fannst allt ömurlegt og vildi helst fara strax til baka. Ég saknaði fjölskyldu minna og vina. Það var heldur ekkert á dagskránni að flytja til Íslands,“ rifjar hún upp.

Síðan hefur leiðin legið upp á við. „Mér finnst náttúran algjörlega stórkostleg og þess vegna ferðast ég mikið þegar ég á frí. Ég hef engar áætlanir um að flytja neitt í bráð.“

Það er í tengslum við þessar ferðir sem hún nýtir helst þjónustu AFLs. „Ég nýti mér stundum orlofsíbúðirnar þegar ég er að ferðast. Þær eru mjög góðar.“

Óskar sér helst fleira ungs fólks


En hún saknar enn heimahaganna. „Ég tala við fjölskyldu mína og vini hvern einasta dag. Í þorpinu þar sem foreldrar mínir búa hljóma viðvörunarflautur alla daga. Stundum fljúga flugskeyti þar hjá. Hins vegar er bærinn ekki hernaðarlega mikilvægur og þess vegna hefur hann ekki orðið fyrir sprengjuárásum. Ég fyllist stundum sorg yfir hvernig komið er fyrir landinu mínu. Þetta er svo hrikalega brjálað. Margt fólk hefur dáið. Ég hef samt aðeins misst einn ættingja og sá var í hernum.“

Hún segist líka sakna þess að hafa ekki fleira fólk á sínum aldri eystra. „Það er ekki auðvelt að eignast vini á mínum aldri hér. Það væri gaman að hanga saman og gera eitthvað. Ég á alveg vini en það er frekar eldra fólk á aldrinum 50-60 ára.

Af fólkinu frá Úkraínu held ég mest til með nánum hópi sem heldur til hér á Egilsstöðum. Við höfum lítið náð að tengjast fólkinu sem býr á Eiðum. Ég hef reynt að nálgast það en sá hópur virðist halda sig út af fyrir sig.

En ég kynnist líka fólki frá Úkraínu í vinnunni þegar ég þarf að afgreiða það eða það vantar hjálp með lyfin sín.“

Lyfja studdi við íslenskunámið


Anastasia segist hafa það afar gott í Lyfju og bæði samstarfsfólk og yfirmenn hafi stutt við sig. „Ég er búin að vera að læra lyfjafræði Úkraínu og hef getað haldið því áfram í gegnum netið. Ég var fljót að fá vinnu. Iryena Boiko, kona frænda míns, hjálpaði mér við það.

Fólk hérna er mjög opið og yndislegt. Samstarfsfólk mitt er algjörlega stórkostleg og mér líður mjög vel í vinnunni. Inga Sæbjörg (Magnúsdóttir, útibússtjóri), hefur reynst mér mjög vel. Þegar mig langaði til að læra íslensku þá hafði hún samband við sína yfirmenn eftir stuðningi. Svarið var já, þeir sögðu að ég þyrfti að kunna íslensku til að geta sinnt starfinu mínu við að tala við eldra fólkið.“

Ekki er annað að heyra en Anastasia hafi lagt hart að sér í íslenskunámi. „Ég er búin með tvö námskeið hjá Austurbrú. Síðan skráði ég mig í einn áfanga í Menntaskólanum á Egilsstöðum því ég vildi meira. Ég æfi mig á hverjum degi. Mér finnst gaman að læra og tala íslensku. Ég vil líka geta gert það. Það er betra að tala málið því þetta er ekki mitt fæðingarland.“

Viðtalið birtist áður í fréttabréfi AFLs Starfsgreinafélags sem fylgdi Austurglugganum í október 2023. Það er hér endurbirt í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá innrás Rússlandshers í Úkraínu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.