Skip to main content

Salernishús við Snæfellsskála ónýtt eftir eldsvoða í nótt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. júl 2025 09:57Uppfært 11. júl 2025 10:00

Salernishúss við Snæfellsskála er ónýtt eftir að eldur kom upp í því um klukkan þrjú í nótt. Ljóst er að skert þjónusta verður á svæðinu í sumar. Þjóðgarðsvörður færir landvörðum og gestum á svæðinu þakkir fyrir viðbrögðin í nótt.


„Húsið er uppistandandi en ónýtt. Aðalatriðið er þó að enginn slasaðist,“ segir Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs.

RÚV greindi fyrst fjölmiðla frá brunanum. Eldsins varð vart um klukkan þrjú í nótt. Landverðir og gestir á svæðinu, þar á meðal verktakar sem eru þar að vinna við endurbætur á skálanum sjálfum, reyndu að halda eldinum í skefjum með slökkvitækjum og öðrum tiltækum ráðum á meðan slökkvilið var á leið frá Egilsstöðum en það var um einn og hálfan tíma á leiðinni.

Allir hjálpuðust að á staðnum


Í kjallara salernishússins er geymt gas en steypt er í kringum það og því komst eldurinn aldrei nálægt því. Skálinn sjálfur eða önnur mannvirki í kring voru heldur ekki í hættu þar sem logn var. Það þýddi hins vegar að reykurinn lagðist yfir svæðið.

Agnes segir landverði hafa brugðist hárrétt við en þeir þurftu að vekja fólk, bæði í skálanum og á tjaldsvæðinu, og fá það til að rýma meðan slökkvistarfið stóð yfir. Þeir og gestirnir börðust svo við eldinn.

„Það hjálpuðust allir að. Landverðirnir okkar stóðu sig vel og þeir gestir sem voru á svæðinu. Slökkviliðið var líka ótrúlega fljótt á staðinn,“ segir Agnes en tæplega 100 km eru frá Egilsstöðum í Snæfell.

Aðspurð segir Agnes ljóst að þjónusta verði minni við Snæfell í sumar eftir brunann. „Það þarf að byggja nýtt hús og það er ljóst að það gerist ekki í sumar. Í skálanum er eitt salerni sem hægt er að nota. Mögulega getum við flutt þurrsalerni á staðinn. Við verðum ekki með sturtuaðstöðu og þurfum því trúlega á vísa á Laugarfell með hana.“

Frá slökkvistarfi við sólarupprás í morgun. Mynd: Aðsend