Sambandsleysi enn á 124 kílómetra kafla á stofnvegum landsins
Ekki stendur til að svo stöddu að byggja upp og bæta fjarskiptasamband á tengi- og héraðsvegum á landsbyggðinni en áherslan er lögð á að koma sambandi á á þeim stofnvegum landsins þar sem fjarskiptasambandið er lítið eða ekkert. Alls var sambandslaust eða sambandslítið á 124 kílómetra löngum kafla á stofnvegum landsins síðasta sumar.
Ofangreint kemur fram í svari Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, við fyrirspurn á Alþingi um miðjan maí frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttir þingmanns Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Vildi þingmaðurinn vita hvað stjórnvöld hyggðust fyrir varðandi uppbyggingu fjarskiptasambands í dreifbýlinu.
Heimili í forgangi
Fram kom í máli ráðherra að ekki aðeins er enn sambandslaust að öllu leyti eða mestu á 124 kílómetra kafla stofnvega landsins, en stofnvegir kallast allir þeir vegir sem tengja saman byggðir landsins, heldur og búa ein 100 heimili og vinnustaðir á landsbyggðinni enn við að hafa ekkert aðgengi að fjarneti eða hafa aðgang að fjarneti sem ekki uppfyllir lágmarksskilyrði um alþjónustu.
„Við, í samstarfi við Fjarskiptastofu, hyggjumst ráðast í átak til að bæta fjarskiptasamband á þessum 100 stöðum á landinu. Við munum setja 50 milljónir í verkefnið í ár af þeim heimildum sem við höfum. [...] vonir standa til að það verði þá búið að bæta fjarskiptasambandið á öllum þessum stöðum innan mjög fárra ára.“
Á hluta stofnvega austanlands er samband takmarkað eða slitrótt þegar best lætur. Nægir þar að nefna punkta á stöðum á borð við Möðrudalsöræfi, Suðurfjarðaveg og firðina milli Djúpavogs og Hornafjarðar.
Annars staðar bið
Lilja Rannveig vildi einnig vita hvað ráðherra sæi fyrir sér með samband á tengi- og héraðsvegum og við vinsæla ferðamannastaði.
Íbúar víða á Austurlandi búa við mjög skert samband og hafa ítrekað óskað úrbóta. Til að mynda er fjarskiptasamband á Efra-Jökuldal afar takmarkað og stundum ekkert en þar er auðvitað Stuðlagilið sem er vinsælasti ferðamannastaður Austurlands og trekkir að tugþúsund ferðamanna ár hvert. Íbúar mun víðar, til dæmis í Fellum og Skriðdal, glíma við sama vandamál.
Ráðherra sagði þó engar áætlanir uppi um frekari uppbyggingu fjarskiptasambands á öðrum vegum en stofnvegum að svo stöddu.
„Ekki eru áform um sambærilega uppbyggingu á tengivegum eða héraðsvegum en slíkri uppbyggingu fylgir mikill kostnaður. Sú uppbygging væri mjög jákvæð fyrir mörg svæði en það er samkeppni um fjármagnið í fjarskiptum og í forgangi að tryggja fjölfarna vegi.“
Forsíðumynd frá Stuðlagili þar sem enn þann dag í dag getur verið næsta vonlaust að ná símasambandi. Myndin hér að ofan sýnir gildandi fjarskiptakort Fjarskiptastofu. Rauðu svæðin eru sambandslaus að mestu eða öllu leyti.