Skip to main content

Samdóma álit fagráðsins að veiðiaðferðin samræmdist ekki lögum um velferð dýra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. jún 2023 14:29Uppfært 21. jún 2023 14:34

Anna Berg Samúelsdóttir, fulltrúi Dýraverndarfélags Íslands í fagráði um velferð dýra, segir það hafa verið samdóma álit ráðsins að sú veiðiaðferð sem beitt hefur verið við veiðar á langreyðum standist ekki lög um velferð dýra. Að baki niðurstöðunni liggi mikil og fagleg vinna.


„Okkur var falið að svara spurningunni um hvort hægt sé að standa þannig að veiðum á stórhvelum að mannúðleg aflífun þeirra sé tryggð. Ekki var óskað eftir því að lagt yrði mat á aðra þætti.

Við unnum niðurstöðuna eins faglega og hægt er. Við funduðum mikið og viðuðum að okkur mikið af gögnum en á sama tíma var þrýstingur á okkur að vinna hratt.

Við fórum yfir eftirlitsskýrslu Matvælastofnunar um veiðarnar frá í fyrra og óskuðum eftir öllum fylgigögnum sem völ var á þaðan, svo sem myndbandsupptökum af veiðunum. Við kölluðum líka til sérgreinalækni villtra dýra hjá MAST, hvalasérfræðing Háskóla Ísland og norskan dýralæknir sem er sérfræðingur um veiðiaðferðina og hefur veitt Hval hf. og erlendum hvalaveiðurum ráðgjöf,“ segir Anna Berg.

Átti að vera ljóst að fagráðið væri að störfum


Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, tilkynnti í gær um frestun á veiðum á langreyðum þar til 31. ágúst. Það gerði hún með tilvísan í niðurstöðu fagráðsins og sagði að þótt skammt hefði verið til veiða þá hafi hún ekki getað annað en brugðist við eftir að niðurstaðan var ljós.

Skammur fyrirvari á ákvörðuninni hefur verið gagnrýndur en síður niðurstaða fagráðsins. Anna Berg telur það hrós fyrir vinnuna og minnir á að fagráðið hafi verið sammála um að veiðiaðferðin stæðist ekki lög um velferð dýra. Fulltrúi Bændasamtakanna bætti þó við bókun um að samtökin teldu sjálfbæra nýtingu auðlinda til matvælavinnslu mikilvæga og því fælist engin ályktun með eða á móti hvalveiðum í niðurstöðunni. Þá væri lögfræðilegt álitamál hvort um hvalveiðar giltu sérstök lög umfram lögin um velferð dýra.

Anna Berg segir að um slíkt hafi lengi verið deilt en fyrir liggi vísindalegar niðurstöður um að hvalir flokkist sem sjávarspendýr með lungu og tilfinningakerfi eins og önnur spendýr, ekki sem fiskar. Ráðið dragi annars engar lögfræðilegar ályktanir enda ekki þess hlutverk.

Hún bendir einnig á að vinna ráðsins hafi dregist vegna þess að bið hafi verið á að norski sérfræðingurinn kæmist til fundar. Hins vegar hafi öllum hagsmunaaðilum átt að vera ljóst að ráðið væri að störfum. „Ég finn til með þeim sem missa vinnuna. Það er hins vegar þáttur sem ekki var á okkar borði og ráðherra sagði um leið og eftirlitsskýrslan lá fyrir að hún myndi óska eftir áliti fagráðsins.“

Engin önnur leið við veiðarnar


Langreyðarnar eru aflífaðar með sprengiskutlum. Skýrt kemur fram í niðurstöðu ráðsins, meðal annars með tilvísun í greinar eftir Norðmanninn, að engin önnur leið sé komin fram til þess. Ekki sé hægt að bera saman aðferðir sem nýtast á minni hvali, svo sem hrefnur, sem séu tíu sinnum minni en langreyðarnar.

Samkvæmt skýrslu MAST var algengast að 11,5 mínútur tæki að aflífa dýr, frá því að skutullinn hæfir það. Ef skot geigar og dýrið kafar þá getur málið vandast og tíminn lengst verulega. Dæmi voru um í fyrra að eltingaleikurinn tæki tæpar tvær klukkustundir.

„Við erum ekki að tala um að neinn sé að leika sér að þessu. Skotmennirnir skjóta ekki út í loftið heldur miða á þríhyrningssvæði ofan við ugga. Hins vegar er skýrt í lögunum að ekkert dýr eigi að þjást við aflífun en út frá eftirlitsskýrslunni er klárt að um dauðastríð er að ræða.“

Anna Berg, sem búsett er á Reyðarfirði, tók sæti í fagráðinu síðasta haust eftir að hafa verið kjörin í stjórn Dýraverndarsambandsins. „Við tökum fyrir hvort ýmis mál séu í lagi fyrir dýr eða ekki, meðal annars leyfi til tilraunarannsókna á þeim. Við ályktum um mál út frá gögnum en ekki tilfinningasemi og þannig unnum við að þessu máli eins og öllum öðrum.“

Mynd: Börkur Sigurbjörnsson/CC 2.0