Sveitarfélögin skoða sameiginlega sýn til næstu áratuga
„Íbúar Austurlands eru í grunninn sammála um flest það sem máli skiptir þó samfélögin eystra séu frábrugðin hvert öðru,“ skrifar Einar Már Sigurðarson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, en komin er fram tillaga að svæðisskipulagi Austurlands alls fram til ársins 2044.
Í viðamiklu plaggi sem gefið hefur verið út rafrænt af þessu tilefni gefur að líta margvíslega þætti sem fjórðungurinn allur á sameiginlegt og sveitarfélög á svæðinu munu fylgja eftir ef tillagan hlýtur samþykki hjá hverju og einu sveitarfélagi austanlands. Ritið í heild sinni er aðgengilegt til 21. apríl á vef Austurbrúar.
Tilgangur slíks svæðisskipulags til langs tíma er að samstilla stefnu allra viðkomandi sveitarfélaga á hinum ýmsu sviðum. Þar með talin umhverfismál, efnahagsmál, samfélagsmál og menningarmál í því skyni að tryggja sjálfbæra þróun komandi kynslóðum í hag.
Tekið er á ýmsu í tillögunni og þar á meðal eru greindar helstu áskoranir fjórðungsins í náinni framtíð. Þar er talið mikilvægt að styrkja mannauð og efla alla nýsköpun. Efla samvinnu milli sveitarfélaganna, íbúa og fyrirtækja og stuðla að lýðfræðilegu jafnvægi og góðu heilsufari íbúa. Nýta þarf auðlindir með sjálfbærum hætti og stuðla að þróun hringrásarhagkerfis og vernda og styrkja landslagssérkenni og menningararf.
Þó tillagan, ef samþykkt, gildi til næstu 22 ára er hún þó ekki meitluð í stein eins og formaðurinn víkur að:
„Vafalítið mun Svæðisskipulag Austurlands þróast á næstu árum, það verður vegið og metið reglulega eins og eðlilegt er í síbreytilegu umhverfi. Ég er í engum vafa um að sameiginleg sýn, sem byggist á heimsmarkmiðunum og er mótuð í samtali íbúa landshlutans, muni skila komandi kynslóðum samfélagi þar sem almenn lífskjör verða með því besta sem gerist.“