Sameina menningarstofu og safnastofnun í Fjarðabyggð

Ná skal fram samlegð í öllu menningarmálastarfi með sameiningu safnastofnunar og menningarstofu Fjarðabyggðar samkvæmt nýlegri samþykkt meirihluta bæjarráðs. Þá skal og færa öll bókasöfn sveitarfélagsins formlega undir stjórn grunnskólanna.

Með sameiningu þessara tveggja stofnanna Fjarðabyggðar mun eftirleiðis aðeins einn stjórnandi vera yfir menningarmálum í heild sinni. Stefnt er að því að slíkar breytingar á skipulaginu verði til þess að samhæfi aukist og starfsemin muni eflast í kjölfarið. Stefnan í menningarmálum verði sú að fella störf safna í sveitarfélaginu að heildarmarkmiðum sem fyrir liggi og nýta söfnin með ríkari hætti í menningar- og listalífi Fjarðabyggðar.

Stefán Þór Eysteinsson, formaður bæjarráðs, segir vonir standa til að breytingin efli enn frekar mikilvægt menningarlíf í Fjarðabyggð allri enda sé blómstrandi menning beinlínis einn hornsteinn öflugra samfélaga. Sömuleiðis vonist menn til að með tilfærslu bókasafnanna til grunnskólanna muni þjóna íbúum betur.

„Eins og staðan er núna eru öll okkar bókasöfn staðsett í skólunum og virka þannig líka sem skólabókasöfn. Við höfum rætt við skólastjórnendur og starfsmenn bókasafnanna um þessa breytingu og allir tekið ágætlega í það. Við erum að horfa í að ná ákveðnni samlegð með þessari breytingu.“

Aðspurður hvort slík breyting hafi einhver áhrif á opnunartíma safnanna segir Stefán að stjórn menningarstofu og safnastofnunar, sem farið hefur með mál bókasafnanna hingað til, hafi verið að skoða slíkt en engar ákvarðanir verið teknar að svo stöddu.

Öll bókasöfn Fjarðabyggðar eru innan veggja grunnskólanna í sveitarfélaginu og því hæg heimatökin að færa stjórn þeirra yfir til grunnskólanna. Mynd Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.