Sameiningarviðræður sparisjóðanna lagðar til hliðar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. okt 2023 11:32 • Uppfært 02. nóv 2023 10:51
Ákveðið hefur verið að hætta viðræðum um sameiningu Sparisjóðs Austurlands og Sparisjóðs Höfðhverfinga. Stjórnarformaður Sparisjóðs Austurlands segir þörf á að skoða frekari samvinnu þeirra fjögurra sparisjóða sem eftir eru í landi.
Stjórnir sparisjóðanna tveggja ákváðu í mars að kanna möguleikann á sameiningu. Hluti forsendunnar var stuðningur KEA sem vildi leggja til nýtt stofnfé. Í kringum aðalfundi sjóðanna í lok september var tilkynnt að viðræðunum yrði ekki haldið áfram.
„Þetta voru bara viðræður og að minnsta kosti í bili náðist ekki saman,“ segir Jón Einar Marteinsson, formaður stjórnar Sparisjóðs Austurlands. Aðspurður vildi hann ekki fara nánar út í á hvaða atriðum hefði helst steytt.
Í tilkynningu stjórnarinnar segir að til framtíðar sé mikilvægt að horfa á rekstrarumhverfi þeirra sparisjóða enn starfi. Eðlilegt sé að þau mál verði skoðuð heildstætt á næstu mánuðum í góðri samvinnu allra. Að auki eru sparisjóður á Ströndum og Þingeyjarsýslum.
„Sparisjóðirnir eru fáir og litlir. Daglega er mikil samvinna þeirra á milli. Það hefur ekkert verið rætt um sameiningu þeirra allra en því hefur verið velt upp reglulega í gegnum árin,“ segir Jón Einar.
Gott síðasta ár
Hagnaður af rekstri Sparisjóðsins á síðasta ári nam 68 milljónum króna, eða 50 milljónum eftir skatta. Bókfært eigið fé hans er rúmlega einn milljarður. Í ársreikningi segir að staða sjóðsins sé sterk, lítið sé um vanskil og stærstur hluti útlána tryggður með veði í íbúðarhúsnæði.
Hreinar vaxtatekjur voru 307,7 milljónir og jukust um 50 milljónir. Vaxtatekjur hækkuðu töluvert en einnig vaxtagjöld á móti. Þau meira en tvöfölduðust. Handbært fé lækkaði um 350 milljónir, mest vegna breytinga á fjárfestingaverðbréfum upp á 830 milljónir en einnig vegna lánahreyfinga viðskiptavina. Útlán sjóðsins nema um 6,6 milljörðum en innlánin 7,7 milljörðum. „Síðasta ár gekk ágætlega og staða sjóðsins styrkist jafnt og þétt,“ segir Jón Einar.
Stefna á að flytja í minna húsnæði
Ákveðið hefur verið að auglýsa húsnæði sjóðsins að Egilsbraut 25 í Neskaupstað til sölu. „Það er of stórt fyrir starfsemina í dag. Hluti þess hefur verið leigður en það er ekki lengur. Við höfum spáð í þessu í nokkur ár og ákváðum að auglýsa þetta núna,“ segir Jón Einar.
Í tilkynningu stjórnar kemur fram að sérstaklega sé horft til væntanlegrar viðbyggingar við Múlann. Jón Einar tekur þó fram að allir flutningar séu háðir því að fyrst takist að selja núverandi húsnæði.
Mynd: Kristín Hávarðsdóttir