Samfélagslegur kostnaður umferðarslysa í Múlaþingi um þrír milljarðar á ári
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. maí 2025 16:51 • Uppfært 12. maí 2025 16:51
Samfélagslegur kostnaður af umferðarslysum í Múlaþingi yfir 15 milljarðar króna á árunum 2019-2023. Þorri óhappanna er á vegum í umsjá Vegagerðarinnar. Við gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Múlaþing var bent á fimm sérstaklega hættulega staði miðað við upplýsingar um slys.
Sveitarstjórn Múlaþings samþykkti nýverið fyrstu umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins. Í henni er meðal annars áhersla á að vernda gangandi vegfarendur. Við undirbúning hennar var verkfræðistofan Efla fengin til að greina fjölda umferðarslysa og staðsetningu þeirra.
Samkvæmt slysatölfræði úr umferðarslysaskráningarkerfi Samgöngustofu á árunum 2014-23 urðu 1103 slys innan marka Múlaþings. Í langflestum eða 881 tilfellum, meiddist fólk ekki, 160 með lítilsháttar meiðslum og 62 með alvarlegum.
Um fjórðungur allra umferðarslysanna hafa átt sér stað innan þéttbýliskjarna Múlaþings á tímabilinu, eða alls 266 talsins. Þar af eitt banaslys og 32 slys með meiðslum af einhverju tagi. Það slasast því að meðaltali þrír einstaklingar í slysum í þéttbýliskjörnunum ár hvert.
Efla greindi sérstaklega staðsetningu slysa á árunum 2019-23. Á því tímabili voru skráð 439 slys og 338 óhöpp í Múlaþingi öllu. Þar af 29 alvarleg slys og eitt banaslys.
Sérfræðingar Eflu litu þessu samhliða á hver samfélagslegur kostnaður samfélagsins vegna þessara slysa væri áætlaður að gefnum tilteknum forsendum. Í ljós kom að kostnaðurinn mældist 15,5 milljarðar alls og þar af 11,2 milljarðar króna á vegum í eigu Vegagerðarinnar en 4,4 milljarðar króna á vegum sem Múlaþing hefur umsjón með. Þetta þýðir að árlegur kostnaður samfélagsins er rúmlega 3 milljarðar króna vegna slysa í Múlaþingi eingöngu.
Þeir staðir sem mælt er með að skoðaðir verði sérstaklega þegar ákveða skal í hvað fjármagn til öryggis á vegum skuli fara, eru kaflar á eftirfarandi vegum en þeir eru allir á forræði Vegagerðarinnar.
● Seyðisfjarðarvegur á milli Fardagafoss og Miðhúsaár.
● Fagradalsvegur við Mjóafjarðarveg.
● Fagradalsvegur við sveitarfélagamörk Múlaþings og Fjarðabyggðar.
● Axarvegur, og þá sérstaklega gatnamót við Hringveginn í Berufirði.
● Hringvegurinn við Jökulsá á Brú (Skjöldólfsstaðir og Ármótasel).
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.