Skip to main content

Samfylkingin mælist stærst á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. jún 2023 11:17Uppfært 02. ágú 2023 09:28

Samfylkingin mælist stærst á Austurlandi, líkt og landinu öllu, í nýrri skoðanakönnun sem birt var í morgun.


Maskína gerði könnunina en það var Vísir sem greindi frá henni. Alls tóku tæplega 1.700 manns, dregin úr Þjóðskrá, þátt í henni frá 1. – 22. júní. Svörin frá Austurlandi voru tæplega 50. Ekki er settur sérstakur fyrirvari á þau í könnunni.

Samfylkingin mælist með 19,5%, Framsóknarflokkur 17%, Sjálfstæðisflokkur 15,6%, Vinstri hreyfingin grænt framboð 13,4%, Miðflokkurinn 10,3%, Píratar 8,4%, Viðreisn 7,9%, Sósíalistar 6% og Flokkur fólksins 1,3%.

Þótt Samfylkingin sé stærst er hún töluvert veikari eystra en á landsvísu þar sem hún fær 27% og er langstærst. Framsókn, Vinstri græn og Miðflokkurinn eru töluvert sterkari eystra en yfir landið meðan Píratar og Flokkur fólksins eru talsvert frá sínu.

Reikniforsendur Norðausturkjördæmis


Könnunin er brotin niður á landshluta en ekki kjördæmi. Þess vegna koma ekki tölur fyrir Norðausturkjördæmi. Þó er hægt að leiða að þeim líkur með að bæta Norðurlandi við Austurlandi og gefa sér að þunginn af Norðurlandi í könnuninni sé eins og í kjördæminu á Eyjafjarðarsvæðinu.

Miðað við þær forsendur mælist Samfylkingin í 23,4% á Norður- og Austurlandi, Framsóknarflokkur með 15,7%, Sjálfstæðisflokkur með 14,5%, Vinstrihreyfingin – grænt framboð með 11,5%, Miðflokkurinn með 9,4%, Flokkur fólksins með 8,5%, Viðreisn með 6,8%, Píratar 5,5% og Sósíalistaflokkurinn með 4,7%.

Út frá þessu fengu Samfylkingin þrjá þingmenn í kjördæminu, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur tvo hvorn og síðan Vinstri græn, Miðflokkur og Flokkur fólksins einn þingmann hvert. Annar þingmaður Sjálfstæðisflokksins sendur tæpast en fyrsti þingmaður Viðreisnar kemst næst því að fella hann og þar á eftir fylgir fjórði þingmaður Samfylkingarinnar.