Skip to main content

Samfylkingin sópar áfram til sín fylgi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. ágú 2025 09:41Uppfært 07. ágú 2025 09:47

Samfylkingin ber höfuð og herðar yfir aðra flokka í Norðausturkjördæmi, samkvæmt nýjasta þjóðarpúlsi Gallup. Litlu munar að Framsóknarflokkurinn missi báða þingmenn sína í kjördæminu.


Samkvæmt niðurstöðunum ber Samfylkingin höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálaflokka í kjördæminu þar sem hún mælist með 37,5% fylgi og fjóra þingmenn. Það er jafnframt besta útkoma flokksins í landsbyggðarkjördæmi.

Stærstu tíðindin eru sennilega hrakfarir Framsóknarflokksins, sem löngum hefur verið sterkur í kjördæminu. Hann er núna kominn niður í 7,5%. Samkvæmt útreikningum Gallup fengi flokkurinn þó kjörinn þingmann.

Gallup reiknar út frá 9 kjördæmakjörnum þingmönnum. Tíundi þingmaður kjördæmisins hefur verið jöfnunarmaður. Samkvæmt útreikningum Austurfréttar á grundvelli aðeins kjördæmisins væri það fimmti þingmaður Samfylkingarinnar. Hann er jafn oddvita Framsóknar.

Litlu munar síðan aftur á þessum þingmönnum Framsóknar og Samfylkingar og öðrum þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Í aðdraganda síðustu þingkosninga var bent á að samkvæmt reiknireglum útfrá íbúafjölda eru líkur á að Norðausturkjördæmi missi þingmann fyrir næstu kosningar. Það þýðir að sama og engu munar að Framsóknarflokkurinn tapi báðum þingmönnunum sem kjörnir voru við síðustu kosningar.

Reyndar munar ekki miklu að hann þurrkist alveg út, en hann mælist með 5% fylgi á landsvísu. Samkvæmt Gallup fengi Framsókn tvo þingmenn, báða kjördæmakjörna og kæmi hinn úr Norðvesturkjördæmi.

Könnunin er býsna stór, á landsvísu svara 4.000 manns, þar af 440 í Norðausturkjördæmi. Austurfrétt hefur aðgengi að gögnunum í samvinnu við RÚV.