Skip to main content

Samfylkingin stærst í Norðausturkjördæmi í nýrri könnun

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. apr 2025 11:16Uppfært 02. apr 2025 11:18

Samfylkingin mælist stærsta í Norðausturkjördæmi og hefur bætt við sig frá kosningunum í nóvember í nýjum þjóðarpúlsi Gallup sem gerður var í mars.


Hreyfingar fylgis á Austurlandi eru svipaðar og á landsvísu. Samfylkingin bætir við sig, að því er virðist fyrst og fremst á kostnað Flokks fólksins. Gengi Sjálfstæðisflokksins er heldur að rísa á kostnað Miðflokks og Framsóknarflokks og Sósíalistaflokkurinn jaðrar við að ná inn á landsvísu.

Könnunin er stór, að baki henni liggja um 5.000 svör. Austurfrétt hefur aðgang að niðurstöðunum í gegnum RÚV.

Vert er að taka fram að útreikningar Gallup um þingsæti í kjördæmi byggja á níu þingsætum sem eru kjördæmakjörin. Hið tíunda er jöfnunarþingsæti. Austurfrétt hefur bætt við útreikningi sem sýnir að miðað við úrslit í kjördæminu eingöngu færi það þingsæti til Miðflokksins sem héldi þá sínum tveimur fulltrúum. Þar skammt á eftir er fjórði þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu.