Samgöngumál: „Við urðum undir á vettvangi SSA“
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. feb 2024 14:03 • Uppfært 22. feb 2024 14:09
Tæplega 1200 manns hafa nú ritað nafn sitt á undirskriftalista þar sem hvatt er til þess að göng milli Norðfjarðar og Seyðisfjarðar um Mjóafjörð, svokölluð Fjarðagöng, verði sett í forgang í samgönguáætlun. Oddviti minnihlutans í Fjarðabyggð segir kjörna fulltrúa þar hafa orðið undir í atkvæðagreiðslum um samgöngumál innan Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Forseti bæjarstjórnar segir mikilvægt að forgangsröðun sé endurmetin út frá aðstæðum í samfélaginu hverju sinni.
Erlendur Magnús Jóhannsson setti í lok nóvember af stað undirskriftasöfnun á Island.is til stuðnings kröfunni um að Fjarðagöng verði sett í forgang á samgönguáætlun. Samkvæmt núgildandi áætlun eru þau næst í röðinni á eftir Fjarðarheiðargöngum en hafa verið færð aftar í þeim drögum sem liggja fyrir Alþingi.
Erlendur sendi núverið bæjarstjórn Fjarðabyggðar opið bréf þar sem hann efast um forsendur úttektar lauk árið 2019 þar sem lögð var til hringtenging um Austfirði þar sem byrjaði yrði á Fjarðarheiðargöngum. Í bréfinu vitnar hann til samtals við einstaklings sem hafi unnið við rannsóknir á mörgum jarðgöngum hérlendis og dregur þar í efa heilindi þeirra sem unnu að skýrslunni, einkum fyrrum vegamálastjóra og ráðgjafa KPMG.
Þá telur Erlendur forsendur breyttar fyrir samþykktum SSA um jarðagöng með tilkomu álversins á Reyðarfirði þar sem þörf sé á greiðum samgöngum milli Reyðarfjarðar og Egilsstaða. Það verði best trúlega best gert með göngum undir Eskifjarðarheiði.
Vilja Fjarðabyggð dragi til baka stuðning við ályktanir SSA
Í bréfinu segir Erlendur það skyldur kjörinna fulltrúa Fjarðabyggðar að verja brothætta byggð Mjóafjarðar. Fyrir hönd þeirra sem ritað hafa nafn sitt á undirskriftalistann skorar hann á kjörna fulltrúa Fjarðabyggðar um að draga til baka stuðning sinn við samþykktir SSA og vinna í stað þess að því að Fjarðagöng verði næst á samgönguáætlun.
Auk þess sé mikilvægt að fá til að mynda Háskólann á Akureyri (HA) til að greina ávinning mismunandi samgöngu- og jarðgangaleiða á Austurlandi. Rannsóknastofnun HA gerði úttekt á jarðgangakostum fyrir Vegagerðina árið 2022. Þar voru göng á mið-Austurlandi ekki skoðuð þar sem ákvörðun taldist hafa verið tekin um þau.
Bréf Erlends kom til umræðu á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar fyrir viku. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, fagnaði þar frumkvæði bréfritara og sagði slíka grasrótarhreyfingar oft hafa skipt máli fyrir framþróun í samgöngumálum.
Telur T-göng hentugri kost
Á þingi SSA haustið 2023 urðu talsverðar umræður um forgangsröðun jarðganga. Að lokum var þó samþykkt með miklum meirihluta ályktun um að Fjarðarheiðargöng yrðu næstu göng en samhliða yrðu Fjarðagöngin hönnuð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð greiddu einir atkvæði gegn tillögunni.
„Það verður bara að segjast eins og er að við urðum undir á vettvangi SSA,“ sagði Ragnar á bæjarstjórnarfundinum. „Við vörðum þar fyrir svokölluðum T-göngum (Fjarðagöng með tengingu frá Mjóafirði til Héraðs). Ég held ég tali fyrir hönd flestra að sú skoðun okkar hefur ekki breyst en vettvangur SSA er lýðræðislegur. Þar urðum við undir og Fjarðarheiðargöng eru í forgrunni ályktunar.
Við höfum í gegnum tíðina reynt að hnika til samþykktum og ályktunum SSA en svona er þetta á lýðræðislegum vettvangi. Skoðun mín er engu að síður sú að það væri farsælla fyrir Austurland í heild að fara með göng inn til Mjóafjarðar og gera þaðan T-tengingu. Þau göng yrðu arðbærari að því leyti að þau yrðu betur nýtt af Austfirðingum.
Hin svokallaða hringtenging leiðir ekki til annars en þess að Fagridalur verður áfram lífæð Austurlands og yrði í notkun flestra. Það er engin stytting fólgin í göngum frá Norðfirði yfir til Seyðisfjarðar og þaðan til Egilsstaða,“ sagði Ragnar.
Það er hins vegar hæpin fullyrðing miðað við skýrsluna frá 2019. Samkvæmt henni styttist leiðin milli Neskaupstaðar og Egilsstaða um 23 km með hringtengingunni en 20 km með T-jarðgöngum frá Mjóafirði upp í Slenjudal, miðað við núverandi leið yfir Fagradal. Styttingin milli Egilsstaða og Eskifjarðar er 7 km með hringtengingunni en 4 km með T-göngum. Á móti er 15 km lengra frá Reyðarfirði um hringgöngin eða 18 km um T-göng samanborið við Fagradalinn.
Verður að horfa til aðstæðna í þjóðfélaginu
Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks, sagði að eðlilega væru skiptar skoðanir um samgöngumál á Austurlandi. Þótt hver hefði sína skoðun og umræðan oft tilfinningarík þá sameinaðist fólk þó um að vilja sjá það sem gagnaðist öllum fjórðungnum. Hann sagði að Fjarðagöngin gætu verið mikilvæg til að styrkja atvinnu- og þjónustusvæðið í Fjarðabyggð.
En Jón Björn talaði líka um að nauðsynlegt væri að taka tillit til aðstæðna í þjóðfélaginu hverju sinni. Trúlega væru framundan þrengingar í efnahagslífi þjóðarinnar vegna náttúruhamfaranna í Grindavík sem aftur hefðu áhrif á aðrar framkvæmdir á landinu. „Ég held við verðum að horfast í augu við það, hvort sem við viljum það eða ekki.
Það er mikilvægt að við hér í Fjarðabyggð, sem annars staðar á Austurlandi, getum tekið samtalið um breytingar, ef ástandið er þannig að það dregur úr líkum á öðrum framkvæmdum. Ég vona að það sé vilji til þess á Austurlandi að halda áfram að ræða þetta og taka afstöðu út frá þeirri stöðu sem hverju er gagnvart samgöngumálum en ekki bíða svo árum og áratugum skiptir eftir lausnum sem hugsanlega geta orðið langt inn í framtíðina. Það mun ekki síður veikja Austurland,“ sagði Jón Björn.
Hann bætti við að eðlilegt væri að skoðanir væru skiptar og þeim fylgt eftir þótt fylgt væri eftir niðurstöðum á sameiginlegum vettvangi. Umræðu um samgöngumál lyki ekki með samþykkt á vegum SSA heldur þyrfti að taka mið af umhverfinu hverju sinni.