Samhljómur um tæknivæðingu og sérfræðiþjónustu í grunnskólum

Lítill munur er milli framboðanna til sveitarstjórnakosninganna í Múlaþingi þegar kemur að tæknivæðingu grunnskóla og aukinni stoðþjónustu í skólunum.

Þetta kom fram í svörum frambjóðenda við spurningum kjósenda á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóð fyrir í samstarfi við Múlaþing á laugardag.

Spurt var út í tæknivæðingu grunnskóla á þeim forsendum að þeir hefðu dregist aftur úr skólum annars staðar á landinu. Sérstaklega var spurt út í svokallaða 1:1 aðferð, sem er að tryggt sé tæki á hvern nemanda.

Þröstur Jónsson úr Miðflokki, sagði framboðið fylgjandi því að sem mest væri gert en á endanum snérist dæmið um peninga. Múlaþing vanti öflugt fyrirtæki sem styrki skólanna, eins og gerst hafi annars staðar. Hann bætti við að þörf væri á að fara yfir samning ríkis og sveitarfélaga um stuðning við námsgögn og kanna hvort ríkið standi raunverulega við hann eftir þær tæknibreytingar sem orðið hafa.

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði að greina þyrfti þörfina, sjá hvað væri til af tölvum í skólanum og gera svo áætlanir 2-3 ár fram í tímann með hliðsjón af væntanlegum nemendafjölda. Best væri að hefja uppbygginguna á efsta stigi til að tryggja sem bestan undirbúning nemenda fyrir framhaldsskólana.

Frambjóðendur Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna töluðu á sömu nótum, að taka þyrfti stöðuna ásamt skólastjórnendum og byrja á að tæknivæða efstu bekkina.

Ekki hlaupið að því að fá sérfræðinga

Á fundinum var einnig spurt út afstöðu til aukinnar stoðþjónustu í grunnskólunum, til dæmis talmeinafræðinga, sálfræðinga og iðjuþjálfara. Pétur Heimisson, sem skipar þriðja sætið hjá VG, sagði þetta eitt af því sem grunnskólafulltrúi, sem standi til að ráða til sveitarfélagsins í haust, þurfi að fara yfir með skólastjórnendum.

Stóra vandamálið væri framboð á sérfræðingum sem Pétur, sem starfar sem framkvæmdastjóri lækninga hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands, þekkir vel. „Það er stór áskorun að manna þessa sérfræðiþörf. Við höfum enga skyndilausn. Ég vinn alla daga við að fá sérfræðinga og fæ þá oft ekki.“

Hildur sagðist ger sér grein fyrir að erfiðlega gengi að manna sálfræðistöðurnar en gott væri að fjölga þroska- og iðjuþjálfurum sem stutt gætu við börn í vanda. Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokksins, sagði æskilegt að auka faglega breidd innan skólanna og það þyrfti að vinnast með skólastjórnendum.

Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sagði Austurlandslíkanið, þar sem sérfræðingar frá skólum, félagsþjónustu og heilbrigðisstofnun vinna saman til að reyna að grípa sem fyrst inn í vanda hefði reynst vel þótt skortur á sálfræðingum hefði reynst vel. Berglind, sem er fyrrverandi skólahjúkrunarfræðingur, hvatti til þess að stöðugildi þeirra yrðu aukin og nemendur hvattir til að leita til þeirra með ýmis málefni sem hjúkrunarfræðingarnir gætu annað hvort leyst strax eða komið áfram.

Örn Bergmann Jónsson, þriðji maður á lista Miðflokksins, gagnrýndi forgangsröðun bæjaryfirvalda síðustu ár. „Að börnum líði vel er of mikið alvöru mál til að talað sé um þarfagreiningu og þess konar vitleysisgang. Þetta þarf að fara í gang, helst í gær. Þetta eru sömu flokkar og byggðu leikskóla í Fellabæ fyrir 700 milljónir. Það virðist sem steinsteypa skipti meira máli en að börnum líði vel í skólanum.“

Heyra má nákvæmari svör framboðanna, sem og svör þeirra við öðrum spurningum, í spilaranum hér að neðan.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.