Samið um 16 rafhleðslustöðvar í Fjarðabyggð

Breska fyrirtækið InstaVolt áætlar að koma upp 16 nýjum hraðhleðslustöðvum fyrir rafbíla í Fjarðabyggð á næstunni. Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri í Fjarðabyggð, og Mark Stannard fulltrúi InstaVolt, undirrituðu samning þess efnis fyrir skömmu.

Samningurinn er til 25 ára og áformar InstaVolt að setja upp 16, 160 kwh hraðhleðslustöðvar í Fjarðabyggð. Hleðslustöðvarnar verða staðsettar á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Breiðdalsvík.

„Þetta er mikil lyftistöng fyrir okkur í þjónustu við rafbílaeigendur og ferðamenn. Með þessum samningi erum við að gera rafbílanotendum kleift að ferðast um Fjarðabyggð og verja tíma sínum í öllum byggðakjörnum auk þess sem þetta er mikilvægur áfangi í orkuskiptunum,“ er haft eftir Ragnari Sigurðssyni, formanni bæjarráðs, í tilkynningu.

„Við hjá InstaVolt erum að vinna í því að koma upp öflugu hraðhleðsluneti um allt Ísland og samstarf okkar við Fjarðabyggð er stór hluti af þeirri vegferð. Við erum spennt að setja upp stöðvar á sex lykilstöðum og hlökkum til samstarfsins. Við höfum trú á framtíð rafbílanna og það er frábært að sjá að Fjarðabyggð gerir það líka,“ segir Mark Stannard, hjá InstaVolt.

Með opnun hraðhleðslustöðvanna í Fjarðabyggð vera hraðhleðslustöðvar InstaVolt á Íslandi orðnar 48 talsins. Fyrirtækið áætlar að opna 300 hraðhleðslustöðvar á Íslandi á næstu tveimur árum.

InstaVolt leggur áherslu á auðvelt aðgengi að stöðvunum þar sem greitt er fyrir hleðsluna með greiðslukorti eða síma. Ekki þarf að nota sérstaka greiðslulykla eða app.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.