Samið um húsnæði undir samtímalistasafn á Djúpavogi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. mar 2022 10:02 • Uppfært 01. mar 2022 10:02
Samkomulag hefur verið undirritað milli sveitarfélagsins Múlaþings og Ars Longa, samtímalistasafns, um húsnæði fyrir listasafnið á Djúpavogi.
Um er að ræða Vogshús, gamalt fiskvinnsluhús, sem stendur við utanverðan Djúpavoginn. Það er 680 fermetrar að grunnfleti, áberandi í landslaginu þar sem það er klætt gulu bárujárni en má óneitanlega muna fífill sinn fegurri. Það hefur verið í eigu Djúpavogshrepps og nú Múlaþing síðustu ár.
Gert er ráð fyrir miklum endurbótum á húsinu á næstu árum. Í þær verður farið eftir sumarið en nú er unnið að fjármögnun og skipulagi fyrir framkvæmdirnar. Stefnt er að því að listsýningin Rúllandi snjóbolti, sem haldin hefur verið árlega á Djúpavogi frá 2013, verði í húsinu í sumar.
27 verk eftir Sigurð Guðmundsson
Grunnurinn að safnkosti Ars Longa eru 27 verk eftir Sigurð Guðmundsson, sem spanna meira en 50 ár af ferli hans. Þess er vænst að innan fárra ára verði þessi safneign orðin lítil innan um önnur verk erlendra sem íslenskra samtímalistafólks.
Ars Longa er sjálfseignarstofnun. Sigurður og Þór Vigfússon stýra faglegu starfi og sitja í stjórn ásamt Bjarka Diego, Fríðu Björk Ingvarsdóttur, Gretu Mjöll Samúelsdóttur, Jóhanni G. Jóhannssyni og Kristínu Dagmar Jóhannesdóttur.
Listin er tengivagn við hinn stóra heim
Markmið Ars Longa er að safna og varðveita listaverkaeign eftir íslenska og alþjóðlega listamenn, vera leiðandi vettvangur alþjóðlegrar samtímalistar á Íslandi og efla tengsl og samvinnu við listamenn og aðra fagaðila á alþjóðavísu með metnaðarfullu sýningarhaldi. Sambærilegt safn er ekki til hérlendis.
„Listin er tengivagn við hinn stóra heim með öflugri og metnaðarfullri starfsemi sem ætlað er að endurspegla strauma og stefnur samtímalistarinnar. Safnið mun styðja við frjóan jarðveg grasrótar listamanna samhliða sýningum á verkum þekktari listamanna víðsvegar að. Uppbygging alþjóðlegs samtíma-listasafns á svæðinu mun efla samfélagið í heild og þar með efnahagslega framþróun þess,“ segir í tilkynningu.
Listinni vel tekið á Djúpavogi
Fyrsta kornið að safninu eru Eggin í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson. „Það hefur sannast á þeim 12 árum sem verkið hefur staðið að ekki einungis geta listaverk haft jákvæð áhrif á íbúa og gesti staðarins, heldur geta þau orðið að einkenni og ímynd svæðisins sem gerir hann að sérstökum áfangastað.“
Sem fyrr segir hefur alþjóðlega listverkasýningin Rúllandi snjóbolti verið haldin árlega á Djúpavogi frá árinu 2013 í samvinnu Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðina (CEAC). Gestir hennar skipta orðið tugþúsundum. „Snjóboltinn hefur verið og er hann prófsteinn sem hvetur til frekari uppbyggingar og starfsemi. Mikilvæg reynsla hefur komið með skipulagðri menningarstarfsemi á svæðinu og telst hún ómetanleg fyrir væntanlegt safn á Djúpavogi.“