Samið um kjarasamning í álverinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 19. sep 2025 13:33 • Uppfært 22. sep 2025 11:08
Nýr kjarasamningur liggur fyrir hjá félagsmönnum AFL starfsgreinafélags og Rafiðnaðarsambands Íslands sem vinna í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Skrifað var undir samning í hádeginu í dag eftir stíf fundarhöld sem hófust í gærmorgun.
Í tilkynningu segir að samningurinn sé til fjögurra ára en hann gildir afturvirkt frá mars 2025. Honum er lýst sem sambærilegum við aðra samninga sem gerðir hafa verið í stóriðju að undanförnu. „Samningsaðilar þakka ríkissáttasemjara fyrir sína vinnu og fagna því að sameiginleg lausn hafi náðst,“ segir í tilkynningunni.
Atkvæðagreiðslu, sem hófst á mánudag, um verkfall hefur verið aflýst. „Ég held að atkvæðagreiðslan hafi myndað þann þrýsting sem þurfti til að ná þessu saman," segir Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs. Einstaklega mikil þátttaka var í atkvæðagreiðslunni frá byrjun. „Hún fór fram úr mínum björtustu vonum.“
Fulltrúar úr samninganefndum deiluaðila byrjuðu að funda hjá ríkissáttasemjara klukkan tíu í gær og funduðu í allan gærdag. Þráðurinn var tekinn upp aftur í morgun og samningurinn var klár um hádegið.
Aðspurð vildi Hjördís lítið segja um innihald samningsins, sem verður kynntur fyrir félagsfólki á sérstökum fundum á næstunni. „Samningurinn fer núna í dóm félagsmanna sem hafa lokaorðið.“
„Við fögnum þessari niðurstöðu,“ segir Vigdís Diljá Óskarsdóttir, upplýsingafulltrúi Fjarðaáls.
Austfirðingar við undirritun samningsins í dag. Frá vinstri: Andri Reyr Haraldsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, Runólfur Sigmundsson, fjármálastjóri Fjarðaáls, Smári Kristinsson, framleiðslustjóri Fjarðaáls og Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir, formaður AFLs. Mynd: Aðsend