Skip to main content

Samið um rafhleðslustöðvar við Hengifoss

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. ágú 2024 10:07Uppfært 07. ágú 2024 10:07

Instavolt og Fljótsdalshreppur undirrituðu í síðustu vikunni samkomulag um uppsetningu rafhleðslustöðva við Hengifoss. Fyrirtækið áformar að koma upp 20 hraðhleðslustöðvum á Austurlandi fyrir rafbíla á næstu mánuðum.


Á næstunni verður tveimur hraðhleðslustöðvum komið upp á bílastæðinu við Hengifoss. Skammt er síðan Instavolt skrifaði undir samninga við Fjarðabyggð um stöðvar. Þær verða settar upp á næstu mánuðum. Næstar í röðinni eru hins vegar tvær stöðvar á Vopnafirði.

Fljótsdalshreppur hefur staðið í umfangsmiklum framkvæmdum við Hengifoss síðustu misseri. Stærsta verkið í þeim er bygging þjónustuhúss sem bætir verulega aðstöðuna við fossinn. Bílastæðið þar við hefur einnig verið stækkað. Fyrir tveimur árum var tekin í notkun gönguleið þannig hægt er að fara hringinn í kringum gilið.

Húsið er nú tilbúið og verður vígt klukkan 14:00 á sunnudag. Sama kvöld verður efnt til tónleika með Sigurði Guðmundssyni og hljómsveit í félagsheimilinu Végarði. Tónleikarnir eru einnig hluti af dagskrá Regnbogahátíðar Hinsegin Austurlands.

Steinþór Jón Gunnarsson Aspelund, rekstrarstjóri Instavolt og Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps, við undirritun samningsins um stöðvarnar við Hengifoss.