Samið um stofnun rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. jún 2025 16:04 • Uppfært 26. jún 2025 16:27
Í dag var skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Eskifirði. Setrið verður tileinkað menntavísindum og verður hið fyrsta á vegum skólans á því sviði.
Eins og Austurfrétt greindi frá nýverið stendur til að hafa rannsóknasetrið í Gamla barnaskólanum sem verið er að gera upp.
Samkvæmt tilkynningu verður í setrinu verður fyrst um sinn annars vegar lögð áhersla á rannsóknir á inngildingu og fjölbreytileika nemendahópa í sveitarfélögum og hins vegar aukinn stuðningur við kennslu í íslensku sem annað mál og þróun skólaþjónustu.
Þar segir að einnig séu spennandi rannsóknaviðfangsefni á sviðum eins og upplýsingatækni og nýsköpun í menntun, breytingum og þróun á kennsluháttum og fjarnámi og stöðu menntunar á landsbyggðinni.
Fljótlega auglýst eftir forstöðumanni
Það voru Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, sem skrifuðu undir viljayfirlýsinguna.
Sérfræðisvið forstöðumannsins mun hafa áhrif á áherslur við val verkefna en jafnframt er stefnt að því að áherslur og markmið setursins verði mótuð í samvinnu við sveitarfélög á svæðinu. Þá verður einnig leitað eftir samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og forstöðumaður mun jafnframt vinna með fræðafólki og stjórnendum Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
Ráðherra fagnar aukinni starfsemi HÍ á landsbyggðinni
„Stofnun fyrsta rannsóknarseturs Háskóla Íslands á sviði menntavísinda markar tímamót. Þetta er mikilvægt skref til að efla menntarannsóknir, styðja við skólaþróun og fjölbreytileika í menntun. Ég fagna því sérstaklega að Háskóli Íslands styrki starfsemi sína á landsbyggðinni. Háskólastarfsemi á að eiga sér stað um allt land og í nánu samtali við samfélögin.
Að setrið verði til húsa í gamla barnaskólanum á Eskifirði sem nú hefur verið endurgerður með glæsibrag er bæði táknræn og mikilvæg tenging við menntakerfið og sögu svæðisins,“ segir Logi í tilkynningunni.
Styður við skólastarf á Austurlandi
„Það er afar ánægjulegt að uppbygging fyrsta rannsóknaseturs Háskóla Íslands á sviði menntavísinda verði hér á Austurlandi. Þetta er stórt framfaraskref fyrir menntamál á Austurlandi og landinu öllu og skapar vettvang fyrir öflugt rannsóknastarf sem byggir á raunverulegum áskorunum og tækifærum í nærumhverfi samfélaga á landsbyggðunum.
Setrið mun starfa í fallegri umgjörð nýuppgerðs húss og við hlökkum til að taka þátt í mótun og þróun setursins í nánu samstarfi við Háskóla Íslands og ráðuneytið – og þannig styðja við fjölbreyttara og öflugra skólastarf í landshlutanum,“ er þar haft eftir Jónu Árnýju.
Þriðja rannsóknasetrið á Austurlandi
Rannsóknasetrið verður hluti af Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands. Innan stofnunarinnar eru þegar starfrækt 12 sjálfstæð rannsóknasetur víða um land. Fyrir eru rannsóknasetur á Egilsstöðum með áherslu á tengsl manns og náttúru og á Breiðdalsvík með áherslu á jarð- og málvísindi.
„Háskóli Íslands leggur ríka áherslu á að þjóna landinu öllu og vera þannig háskóli allra landsmanna. Ég fagna því að hér sé verið að koma á fót þriðja rannsóknasetri Háskóla Íslands á Austurlandi og því fyrsta, í hópi þeirra þrettán setra sem HÍ er með um landið, þar sem rannsóknir í menntavísindum verða í forgrunni.
Óhætt er að segja að starfsemi rannsóknasetranna hafi eflst og sannað mikilvægi sitt á síðustu tveimur áratugum, bæði hvað varðar rannsóknir, háskóla- og atvinnustarfsemi víða um land og náin tengsl við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Mynd: Háskóli Íslands/Kristinn