Skip to main content

Samið um styrki frá Fjarðabyggð til björgunarsveita

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 03. sep 2025 16:37Uppfært 04. sep 2025 08:57

Fulltrúar björgunarsveitanna fimm í Fjarðabyggð skrifuðu í gær undir samstarfssamning við sveitarfélagið til ársins 2027. Samningurinn tryggir björgunarsveitunum rekstrarstyrk, framlög til að þjálfa leitarhunda og halda námskeið auk þess sem fasteignagjöld þeirra eru felld niður.


„Við erum stolt af öflugu starfi björgunarsveitanna og með þessum samningi sýnum við í verki að við styðjum við bakið á þeim,“ er haft eftir Jónu Árnýju Þórðardóttur, bæjarstjóra, í frétt Fjarðabyggðar.

Stærsta sveitin er Gerpir í Neskaupstað með um 70 félaga á útkallsskrá. Hún er einnig með 15 ungmenni í sínu starfi og hefur ýmsan búnað, meðal annars snjóflóðaleitarhund. „Stærsta áskorunin er að fá fólk til liðs við okkur og viðhalda því sem við höfum,“ segir Daði Benediktsson, formaður Gerpis.

Hjá Brimrúnu á Eskifirði eru um 50 félagar á útkallskrá. Þar hafa einnig verið 15 ungmenni í ungliðastarfi sem fer stækkandi. Kristófer Máni Gunnarsson, formaður sveitarinnar, segir að samningurinn aðstoði við endurnýjun búnaðar en Brimrún stendur fyrir söfnun til að endurnýja 35 ára gamlan björgunarbát.

Grétar Helgi Geirsson, formaður Geisla á Fáskrúðsfirði, fagnar sérstaklega niðurfellingu fasteignagjalda. „Hún er einfaldlega réttlætismál. Við erum að spara samfélaginu miklar fjárhæðir með okkar starfi,“ segir hann. Sveitin er með 40 félaga á útkallslista en ekkert virkt unglingastarf þar sem ekki hafa fengist sjálfboðaliðar til að halda utan um það.

Hjalti Þ. Ásmundsson hjá Ársól á Reyðarfirði, segir líka stærstu áskorunina þar að fá fólk til að gefa tíma sinn í starfið. „Við erum á vakt allan sólarhringinn, allt árið. Það hefur fækkað þeim sem vilja gefa af sínum frítíma í þetta og það er stærsta verkefnið að snúa þeirri þróun við,“ segir Hjalti en 26 manns eru á hennar útkallslista.

Björgunarsveitin Eining á Breiðdalsvík hefur löngum verið öflug en hún heldur reglulegar æfingar fyrir um 20 félaga á útkallslista. „Samningurinn skiptir okkur miklu máli þar sem við erum lítil sveit með takmarkaða möguleika til fjáröflunar. Við erum með snjóflóðaleitarhund sem er mikilvægur öryggisþáttur,“ segir Hrefna I. Melsteð, formaður hennar.

Frá vinstri: Hjalti Þ. Ásmundsson, Ársól, Daði Benediktsson, Gerpir, Hrefna I. Melsteð, Eining, Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, Viktoría Kristín Viktorsdóttir, Brimrún og Grétar H. Geirsson, Geisla. Aftari röð, Stefán Þór Eysteinsson, Þuríður Lillý Sigurðardóttir og Ragnar Sigurðsson. Mynd: Fjarðabyggð