Samið við landeigendur um land undir vindorkugarð í Fljótsdal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. sep 2023 08:51 • Uppfært 28. sep 2023 08:52
Danska fyrirtækið CIP skrifaði í síðustu viku undir samning við eigendur átta jarða í Fljótsdal um frekari rannsóknir og byggingu vindmylla á landi þeirra. Rafmagnið á að nýta til að framleiða rafeldsneyti undir merkjum Orkugarðs Austurlands á Reyðarfirði. Stefnt er að hefja framleiðsluna þar eigi síðar en árið 2030.
„Þetta er leigusamningur um land undir mögulegan vindorkugarð. Hann er ekki orðinn að veruleika, enn vantar leyfi og ákvarðanir um fjárfestingar.
Við eigum margháttaðar umhverfisrannsóknir eftir sem og á vindinum. Við gátum ekki hafið þær meðan ósamið var um aðgengi okkar að landinu,“ segir Anna-Lena Jeppsson, verkefnisstjóri hjá Copenhagen Infrastructure Partners eða CIP.
Samningurinn felur í sér bæði leyfi til rannsókna og síðan nýtingar landsins undir vindmyllur, að uppfylltum skilyrðum svo sem að tilskilin leyfi fáist hjá íslenskum stjórnvöldum.
Upphaf starfseminnar dregst
Verkefnið um Orkugarð Austurlands fór af stað þegar Fjarðabyggð, Landsvirkjun og CIP undirrituðu viljayfirlýsingu sumarið 2021. Síðan hafa fleiri fyrirtæki bæst í þann hóp. Þar er áformað að framleiða rafeldsneyti með efnagreiningu.
CIP hefur hins vegar verið eitt í að afla orkunnar sem þarf til að knýja starfsemina. Til þess hyggst fyrirtækið koma upp vindorkuveri í Fljótsdal. Til skoðunar eru þrjú svæði í hreppnum, uppi á sjálfri Fljótsdalsheiði, á Múla og Víðivallahálsi.
Upphaflega var gert ráð fyrir að gangsetja verksmiðjuna á Reyðarfirði árið 2028. Tafir hafa orðið þar sem engar reglur eru enn um vindorkunýtingu á Íslandi. Anna-Lena segir að tímalínan sé ekki fastmótuð um þessar mundir en hugur standi til að hefja starfsemi í síðasta lagi árið 2030 til að tryggja að Orkugarður Austurlands verði í fararbroddi við mótun nýs markaðar með rafeldsneyti.
Í lok síðasta árs úthlutaði Fjarðabyggð lóð í Reyðarfirði undir Orkugarðinn, skammt utan við álver Alcoa Fjarðaáls. Anna-Lena segir að síðan hafi verið í gangi umhverfisrannsóknir þar. Verkefnið sé hins vegar stórt um sig og þótt unnið sé í því á hverjum degi þá sé það ekki alltaf sýnilegt.
„Það gerist eitthvað á hverjum degi þannig að inn á milli nást stærri áfangar. Ef einn slíkur næst á ári þá er það gott, ef þeir eru tveir þá er það frábært. Ef þeir eru orðnir þrír þá gengur verkefnið mjög hratt.“